Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:11]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti hér ágætisræðu og kom víða við. Auðvitað var það svo að hv. þingmaður stóðst ekki freistinguna og nefndi mikilvægi Evrópusambandsins í ræðunni. Það sem vekur athygli í því er að hv. þingmaður kom inn á gildi Evrópusambandsins. Þá er freistandi að beina því til hv. þingmanns, af því að hv. þingmaður tók það sérstaklega fram að aðildin að NATO væri hornsteinn í okkar varnarsamstarfi: Hver er í grunninn munurinn á grunngildum Evrópusambandsins og NATO þegar kemur að þessum atriðum? Er einhver sérstakur munur á þessum tveimur stofnunum um þau grunngildi sem Ísland vill standa að og vera í samstarfi við aðrar þjóðir um? NATO er með grunngildi um standa vörð um lýðræðisleg gildi, tryggja frelsi og öryggi bandalagsríkja sinna og leita friðsamlegra lausna. Er eitthvað annað í grunngildum Evrópusambandsins sem hv. þingmaður telur að náist ekki fram með grunnstefnu NATO?