Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég held einmitt að sérfræðinga geti greint á um þetta og örugglega myndast líka sjónarmið og skoðanir út frá því hvort þeir hafi komið að málinu áður, t.d. þegar herinn fór 2006, að menn móti svolítið sína afstöðu út frá þeirri atburðarás allri. Það breytir því ekki að ég get ekki leitað til þjóðaröryggisráðs og fengið skjalfest hvernig ráðið hefur metið þetta, hvort betra væri að hafa þetta svona eða hinsegin. Það mat liggur hvergi fyrir. Mér finnst það hættulegt á þeim tímum sem við lifum að við skulum ekki taka fastar á þessu. Mér finnst vont að sjá að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur að mínu mati staðið farsællega vörð um öryggis- og varnarmál þjóðarinnar í gegnum tíðina, skuli ekki ganga lengra þegar kemur að þessu og ekki hafa meiri áhyggjur af þessu. Það er að sjálfsögðu, eins og við vitum, út af því hvernig samsetningin er á ríkisstjórninni. Varðandi sæstrengina, af því að þetta eftirlit er að vissu leyti til staðar af hálfu Bandaríkjamanna, af hverju tökum við þá ekki upp formlegar viðræður við þá þannig að við komum að viðauka við grundvallarsamninginn, þ.e.a.s. varnarsamninginn við Bandaríkin, (Forseti hringir.) og höfum þetta alveg skýrt inni í samningnum, að þetta tilheyri þjóðaröryggi og þá getum við kallað þá til, ef svo ber undir?