153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:34]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er um áhugavert plagg að ræða um margt, tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þessar breytingar virðast taka tillit til mikilvægra innviða samfélagsins og þess að vernda þurfi órofa virkni mikilvægra innviða, styrkingar áfallaþols samfélagsins gagnvart hvers kyns ógnunum og einnig netöryggis og upplýsingaöryggis, þar á meðal fjarskiptatengingar við útlönd. Það virðist vera kjarninn í þessu. Ég vil vekja athygli á því sem er grundvallarforsenda þjóðaröryggisstefnunnar, eins og kemur fram í lok 3. mgr. þjóðaröryggisstefnunnar fyrir Ísland í dag: Grundvallarforsenda þjóðaröryggisstefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.

Ísland er með öðrum orðum herlaus þjóð en við tryggjum öryggi okkar og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki. Hvaða ríki eru það? Jú, það eru Bandaríki Norður-Ameríku. Við gerum það með varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951 sem tryggir varnir Íslands. Við erum með samning við eitt mesta herveldi sögunnar til að tryggja varnir Íslands. Ef ég hef lesið sögubækurnar rétt þá líta Bandaríkin á varnir Íslands sem hluta af vörnum Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn hafa gert það síðan þeir komu hingað í síðari heimsstyrjöldinni á grundvelli Monroe-kenningarinnar fyrir árásina á Perluhöfn í desember 1941, komu í ágústmánuði það ár og fóru líka til Grænlands. Þetta er grundvallarstefnan.

Í núverandi ríkisstjórn, sem er undir forystu Vinstri grænna, virðist þetta kannski ekki vera leyndarmál en það er ekki talað mikið um það. Ég hef spurt hæstv. forsætisráðherra um stefnu flokks hennar varðandi aðild að varnarsamningnum og líka Atlantshafsbandalaginu og þá er vísað í þjóðaröryggisstefnuna. Það er ekki sagt upphátt að flokkur hennar sé enn á móti NATO-aðild og á móti varnarsamningnum. Það er samt kjarninn í þjóðaröryggisstefnunni, eins og segir í 3. tölulið, að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands.

Í 4. tölulið segir að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi áfram varnir Íslands og áfram verði unnið að þróun samstarfsins o.s.frv. Þetta er grundvallaratriði. Þetta er alfa og ómega íslensku þjóðaröryggisstefnunnar. Vissulega er líka talað um norræna samvinnu sem er gott og blessað, en það er aukaatriði í hinu stóra samhengi hlutanna. Það eru þessar tvær meginstoðir.

Varðandi breytingartillöguna þá vil ég benda á að ég vona að það verði breyting á b-lið. Þar segir í lokin með leyfi forseta:

„Lögð verði áhersla á mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til og að stjórnvöld taki virkan þátt í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu hvert á sínu sviði.“

Ég tel þetta orðalag nokkuð misvísandi. Af hverju er það? Vegna þess að við erum þarna að tala um norræna samvinnu sem vissulega er mikilvæg en við erum ekki með varnarsamning við Norðurlöndin. Við erum í góðri samvinnu um náið menningarsamstarf og samstarf á sem flestum sviðum á alþjóðavettvangi. Evrópusambandið og aðild okkar að EES kemur heldur ekki að vörnum Íslands á nokkurn hátt. Það eru aðildarríki NATO sem munu koma að þeim, en það munu fyrst og fremst vera Bandaríkin. Alþjóðleg samvinna, það fellur væntanlega undir Bandaríkin. Það sem ég hefði viljað sjá í þessari setningu er að íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í norrænni og vestrænni samvinnu og alþjóðlegri samvinnu. Það er það sem þetta snýst um. Við erum hluti af Vesturlöndum og við eigum að taka virkan þátt í vestrænni samvinnu til að tryggja öryggi borgaranna, lýðræðisleg stjórnkerfi og friðsamlega lausn deilumála, afvopnun og virðingu fyrir mannréttindum og réttarríkinu. Það er vestræn samvinna fyrst og fremst. Það vantar þau hugtök, Vesturlönd og vestræna samvinnu. Þar heyra að sjálfsögðu líka undir ríki Vesturheims, þ.e. Bandaríkin, Kanada og önnur ríki sem eru ekki í eins miklu samstarfi. Það eru fyrst og fremst þessi tvö ríki Norður-Ameríku, Bandaríkin og Kanada, sem eru kjarninn í okkar þjóðaröryggisstefnu.

Varðandi önnur atriði sem ég minntist á í andsvörum við hæstv. forsætisráðherra og mér finnst vera nokkuð óljós nefni ég t.d. d-lið breytingartillögunnar varðandi 7. tölulið, að hann orðist svo:

„Að stuðlað verði að vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins gagnvart hvers kyns ógnum.“

Síðan segir:

„Lögð verði áhersla á að tryggja skilvirkan og samhæfðan viðbúnað og viðbrögð til þess að takast á við afleiðingar hvers kyns ógna við líf og heilsu fólks, umhverfi, eignir og innviði.“

Málið er þetta: Það að tryggja vernd og órofa virkni mikilvægra innviða verður að falla undir aðild okkar að NATO og aðild okkar að varnarsamningnum við Bandaríkin. Við verðum að tryggja að varnarsamstarfið tryggi verndina og tryggi órofa virkni þessara mikilvægu innviða og tengingar okkar við umheiminn, fjarskiptatengingar með sæstreng við útlönd. Það eru okkar öryggishagsmunir og þar eru þeir tryggðir. Við sem smáþjóð, fámenn eyþjóð í Norður-Atlantshafi, höfum ekki burði til að verja sæstrengina til Íslands, við höfum að vissu leyti burði til að verja okkar innra kerfi, innri tengingar, sem er mjög mikilvægt að við gerum gangskör að.

Það er eitt atriði sem mig langar að benda á og það varðar innri greiðslumiðlun. Það hefur verið bent á það, m.a. í skýrslu frá Seðlabankanum og líka af Gylfa Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands, að við þurfum að koma á fót okkar eigin innri greiðslumiðlun líkt og Danir hafa gert. Af hverju er það? Jú, það sparar okkur tugi milljarða á ári og það myndi líka tryggja að innri greiðslumiðlun okkar myndi ganga snurðulaust fyrir sig kæmi rof á samskipti við útlönd, þannig að það er líka öryggismál. Ég hef óskað eftir því að fjallað verði um það að vernda órofa virkni mikilvægra innviða og um fjarskiptatengingu við útlönd í tengslum við varnarsamstarfið. Það er ekki hluti af virkri utanríkisstefnu eða almannaöryggi nema að vissu leyti, kannski innanlands að vissum hluta. Eins og segir, með leyfi forseta:

„Með þjóðaröryggi er átt við öryggi gegn ógnum er kunna að valda sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegu stjórnarfari og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og stjórnkerfi og mikilvægum innviðum samfélagsins stórfelldum skaða, hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.“

Við byrjuðum á að fjalla um náttúruhamfarirnar en Ísland hefur að mörgu leyti staðið sig mjög vel og verið fyrirmynd annarra ríkja varðandi aðgerðir gegn náttúruhamförum, hvernig við tökum á málum þegar kemur að eldgosum, snjóskriðum og öðrum náttúruhamförum. Ég er sjálfur fæddur í Vestmannaeyjum og flutti nóttina örlagaríku 1973, það verða 50 ár 23. janúar á næsta ári, þegar við urðum sennilega fyrir einum mestu náttúruhamförum Íslandssögunnar og heilt bæjarfélag flutti upp á fastalandið. Það voru viðbrögð íbúanna sjálfra sem skiptu máli og að vissu leyti almannavarna sem stóðu fyrir björgun í þeim náttúruhamförum. Ég bendi líka á að Landsbjörg, sem eru sjálfboðaliðasamtök, og Hjálparsveitir skáta eru ekki hluti af ríkisvaldinu. Ég segi kannski ekki að við séum búin að útvista þessu en það eru almannasamtök sem sjá um öryggi okkar varðandi aðgerðir gegn náttúruhamförum að mestu leyti. Grunnstoðin eru þessar sjálfboðasveitir sem eru gríðarlega mikilvægar og eru sennilega ein af virtustu stofnunum samfélagsins. Við verðum að taka tillit til þess að íslenska ríkisvaldið heldur ekki úti sveitum, jú lögreglusveitum, til þess að aðstoða eða vinna með björgunarsveitunum í náttúruhamförum svo það liggi fyrir, það lýtur að almannaöryggi. Vissulega eru aðrir þættir sem koma að ríkisvaldinu varðandi almannaöryggi og viðbrögð við náttúruhamförum. Við erum með almannavarnadeild o.s.frv. sem er mjög mikilvæg, en það er í sjálfu sér ekki stór stofnun. Varðandi innri og ytri ógnir af mannavöldum þá er það að ráðist verði á Ísland, þ.e. ráðist á innviði okkar, jafnvel hryðjuverkamenn, og svo líka að hingað kæmu skipulögð glæpasamtök. Það fyrra er klárlega undir varnarmálum.

Það segir líka, með leyfi forseta, í greinargerð með þessari breytingartillögu, að þjóðaröryggisstefna felist í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi. Það er mjög mikilvægt að öll atriði í þjóðaröryggisstefnu séu felld undir réttan hlut, virk utanríkisstefna — það nær bara svo langt. Það nær ekki alla leið. Við verðum alltaf að enda á varnarsamstarfi. Almannaöryggi nær til öryggis borgaranna en ekki að kjarnanum í þjóðarörygginu sem er alþjóðleg samvinna við Bandaríkin og NATO.

Mér finnst, svo ég leyfi mér að vitna í 11. töluliðinn, að það sé verið að taka út hugtakið varnarmál, (Forseti hringir.) að það beri vott um að þetta sé einhver feluleikur — ég segi það kannski ekki, en það er mjög mikilvægt að það sé skýrt að það eru varnarmálin sem skipta okkur öllu máli í þjóðaröryggisstefnunni.