Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í framhaldi af ræðu hv. þingmanns vil ég segja að mér finnst fólk skilgreina öryggi ansi þröngt þegar við erum að ræða þjóðaröryggisstefnu í algerlega breyttum heimi. Við höfum vissulega verið rækilega minnt á þjóðaröryggi og mikilvægi þess, ekki bara vegna stríðsins sem nú geisar í Úkraínu, árásarstríðs Rússa þar, heldur einnig vegna annars konar ógna sem hafa dunið á okkur með harkalegum hætti að undanförnu. Nærtækast er að nefna Covid-veirufaraldurinn en einnig áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og munum gera næstu áratugi sem eru loftslagsógnirnar. Það er því löngu tímabært að lögð sé fram ný endurskoðuð þjóðaröryggisstefna sem við eigum auðvitað að fara rækilega yfir hér í þinginu. Ég tek undir með mörgum sem hafa sagt það, m.a. hæstv. forsætisráðherra, að þessi stefna sem við höfum haft hefur dugað okkur vel. Það þýðir ekki að við eigum ekki að taka inn nýja þætti sem okkur mun jafnvel stafa ógn af í framtíðinni.

Við byggjum hefðbundnar varnir okkar gegn þessum hefðbundnu ógnum sem að okkur steðja og við erum svo föst í að séu það eina sem geti í raun raskað ró okkar, sem sagt styrjöld. Við byggjum það á þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu annars vegar og hins vegar á tvíhliða samningum við Bandaríkin. Hvort tveggja eru mjög mikilvægir þættir og ég myndi vilja treysta þessa hnúta enn betur með því að við skoðuðum meira fjölþjóðlegt samstarf. Ég er sannfærður um að þessar nýju ógnir, sem ég get komið inn á eftir, verða aldrei leystar nema í miklu alþjóðlegu og fjölþjóðlegu samstarfi.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að á sama tíma og við leggjum flest áherslu á að skoða þjóðaröryggi í víðasta skilningi þess orðs er það skrýtið að það sé talinn einhver þvergirðingsháttur eða þráhyggja að ræða þátttöku í Evrópusambandinu í sama vetfangi. Staðreyndin er sú að á næstu mánuðum munu Svíar og Finnar, líklega og vonandi, koma inn í NATO og þá erum við með þá stöðu að þrjú af fimm stóru Norðurlandaríkjunum eru bæði innan vébanda NATO og í Evrópusambandinu. Við erum að tala um að 75% af íbúum Norðurlanda tilheyri þá báðum þessum samtökum. Og af hverju gera þau það? Jú, vegna þess að þau telja að eitt nægi ekki heldur geti annað bætt hitt upp. Það hefur margoft komið fram, bæði af hálfu Bandaríkjamanna, sem hafa sagt að Evrópuþjóðirnar verði að taka aðeins meiri ábyrgð á sér, og af hálfu Evrópuþjóðanna, að Evrópusambandið mun leika miklu stærra hlutverk í framtíðinni í varnar- og öryggismálum þó að löndin muni auðvitað áfram vera innan NATO og vinna vel þar.

Hér hefur mikið verið rætt að bæði þessi samtök byggi á sömu grunngildum um frelsi, lýðræði og mannréttindi. Það er alveg rétt. En Evrópusambandið hefur einnig verið í fararbroddi þegar kemur að risastórum áskorunum, svo sem loftslagsógninni, og líka í málum er varða réttindi einstaklingsins, varðandi persónuvernd eða í tilfelli borgararéttinda margra viðkvæmra hópa, og það eru í raun sömu áherslur og við Íslendingar höfum haft og er okkar stærsta og dýrmætasta útflutningsafurð í utanríkismálum. Ég tel að við eigum að eiga í miklu meira samstarfi við líkt þenkjandi þjóðir og samtök.

Það sem mér finnst vera jákvætt við þessa tillögu er að á sama tíma og hún viðurkennir mikilvægi þeirrar stefnu sem við höfum byggt á, er varðar þær hefðbundnu áskoranir og ógnir sem við stöndum frammi fyrir, þá viðurkennir hún líka þær risaáskoranir sem við stöndum auk þess frammi fyrir. Ég er ekki viss um að okkur stafi minni hætta af þeim en hefðbundinni stríðsógn, þrátt fyrir viðsjárverða tíma í Evrópu. Hér er fjölþátta ógninni gerð skil, hún getur birst í öllum mögulegum og ómögulegum myndum, og sumt af því er eitthvað sem við getum kannski ekkert ímyndað okkur núna. Lýðræðið, með þessari tækni sem er, er undir stöðugri ógn, getum við sagt, þar sem vísvitandi er hægt að beita fölskum upplýsingum til að hafa áhrif á stóra hópa þar sem raunverulega er hægt að hafa áhrif á kosningahegðun, og síðan eru það auðvitað loftslagsmálin, sem eru kannski okkar langstærsta viðfangsefni og kannski langmesta ógnin þegar öllu er á botninn hvolft.

Maður hlýtur þess vegna að eyða tveimur til þremur mínútum í að ræða þessar tæknibreytingar sem við erum að taka þátt í. Það er ekki hægt að segja bara: Þetta kemur okkur ekki við. Þetta er nýr hlutur sem byggir á allt annars konar vöru en við erum vön. Þú ert með einhvern fýsískan hlut sem þú þarft svo að framleiða í eins mörgum eintökum og þú hefur áhuga á og flytja með ærnum tilkostnaði á milli staða. Við erum að glíma við stafrænar uppfinningar að einhverju leyti sem geta haft gríðarlega mikil áhrif á okkur án þess að við getum varist þeim fullkomlega. Þessar breytingar eru líka þess eðlis að það eru mjög fáir sem geta gert mikinn usla og það þarf ekki stóran herafla til heldur getur þetta birst okkur alla vega. Mér finnst gott að áherslan í breytingum á þjóðaröryggisstefnu hafi verið á þetta, vegna þess að um leið og þessar tæknilegu áskoranir geta vissulega fært okkur betra líf, aukið framlegð og minnkað sótspor, þá geta þær líka komið illa aftan að okkur og leitt til meiri ójöfnuðar og glundroða ef við hugum ekki vel að okkur.

Mér finnst það ákveðin jafnvægislist að viðurkenna þessa vel þekktu ógn sem stafar að ríkjum og svo hinar nýju sem við erum kannski berskjaldaðri fyrir af því að við höfum ekki tekið þær föstum tökum og beitt okkur gegn þeim. Að því sögðu útiloka ég ekki að maður geti haft ýmislegt við þetta plagg að athuga en ég mun láta það bíða þess tíma sem þetta verður rætt í utanríkismálanefnd. En mitt álit er að þetta sé framfaraskref og ég er í öllum stóru atriðum sammála þeim breytingum sem gerðar hafa verið.