Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:58]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vildi bara koma hér upp í andsvar þar sem hann vitnaði til ræðu minnar og talaði um að ég hefði litið á öryggissjónarmið, þjóðaröryggishugtakið eða öryggisstefnuna, í ansi þröngum skilningi. Ég held að við séum sammála um mjög margt og nánast allt. En ég vildi bara fá skýringu á þessu, hvort hann var að tala um skilgreiningu á öryggishugtakinu í eitthvað víðari skilningi en gert væri í greinargerð með breytingartillögunni. Ég veit að hann og hans flokkur er stuðningsmaður aðildar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin og að grundvallarforsenda stefnunnar sé að Ísland sé herlaus þjóð sem þurfi þá að byggja varnir sínar á samvinnu við önnur ríki, að það sé grundvallaratriði.

Ég er algjörlega sammála því, og get tekið dæmi varðandi það, að það er margt sem ógnar öryggi Íslands. Ég get haldið ræðu um það að lélegt læsi ungra drengja og léleg lestrarkennsluaðferð á Íslandi ógni öryggi Íslands, það er vel hægt að halda því fram. Og að menntakerfi Íslands sé ekki nægjanlega gott, að það ógni öryggi Íslands. Bandaríkin eru farin að líta svo á að lélegt menntakerfi geti ógnað öryggi Bandaríkjanna. Af hverju getum við ekki gert það? Auðvitað þurfum við að skoða styrkleika íslensks samfélags, en varðandi það sem við horfum á hérna, varðandi þjóðaröryggisstefnuna, þá eru það ákveðin kjarnaatriði sem skipta öllu máli.

Vissulega er virk utanríkisstefna mikilvæg. Ég sakna þess að sjá t.d. ekki talað um alþjóðasamstarf í löggæslumálum, lögreglusamstarfi, t.d. til þess að berjast gegn alþjóðlegum glæpasamtökum. Það mætti vel vera í b-liðnum í breytingartillögunni. Ég tel það vera mjög mikilvægt atriði. Það er mál sem við eigum að taka á sjálf. Við erum herlaus þjóð og við verðum að hafa öflugt lögreglulið jafnvel til að tryggja öryggi landsins þar sem við höfum ekki herafla að sækja til ef upp kæmi ólga í íslensku samfélagi. Lögreglan stóð sig mjög vel þegar hér voru fjöldamótmæli í lok hrunsins, þá vorum við ekki með neitt varalið til að kalla á eða neitt svoleiðis. Við höfum ekki neitt slíkt. (Forseti hringir.) En mér þætti gaman að heyra álit hv. þingmanns varðandi alþjóðasamstarf í lögreglumálum.