Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:14]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir sína góðu ræðu og samantekt á nokkrum lykilþáttum. Ég myndi gjarnan óska þess að umræðurnar hérna myndu verða einhvers konar þankatankur um forgangsmál á þessum viðsjárverðu tímum. Á þessum stutta tíma sem ég hef vil ég benda á það sem sumir hafa nefnt og ég tel algjört forgangsmál í þessu samhengi öllu: Hér geisar stríð og ekkert venjulegt stríð. Það er, að því er virðist, galinn maður sem efnir til þess og slíkum mönnum er trúandi til ótrúlegustu óhæfuverka. Það sem hér hefur margkomið fram er að öryggi okkar, nánast á öllum sviðum samfélagsins, er undir alnetinu komið, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Sá sem hefði horn í síðu okkar eða fyndi hjá sér þörf til að hreinlega lama okkur, klippa á þessa sæstrengi, gæti gjörsamlega valdið þeim versta skaða sem dæmi um það sem koma skyldi ef slík hugsun næði einhvers konar undirtökum.

Þá myndi ég vilja benda þeim sem ber ábyrgð á þessu ágæta þjóðaröryggisráði á að tryggja okkur strax aðgang að þeim gervitunglum sem geta kannski skipt með sér því mikla magni upplýsinga og mikilvægra þátta sem koma þyrftu til. Ég held að við séum því miður ekki með neinn mekanisma sem hugsar kannski í þessu stóra samhengi, þjóðaröryggisráð er kannski helsta birtingarmynd þess að eitthvað sé verið að hugsa og gera en samt er þetta allt í skötulíki hjá okkur enn sem komið er. Ég vil segja hreint út að við skulum ekki vera með eina deild sem heldur utan um netöryggið, öll njósnamálin sem á okkur dynja og allt þetta. Það er afar slæmt. (Forseti hringir.) Það eru tveir, þrír á nokkrum stöðum hér og þar. En byrjum á því núna að breyta því sem er í skötulíki í „kötulíki“ og taka til hjá okkur sjálfum í því. (Forseti hringir.) Byrjum á að tryggja okkur aðgang að gervitunglum sem mæta munu því sem á kann að bjáta, sem vonandi kemur ekki fyrir.