Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:19]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið verður eðli málsins samkvæmt stutt og laggott. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvör sín en nú er málshefjandi kominn, formaður þjóðaröryggisráðs. Þá vil ég ítreka það sem ég sagði hér áðan: Við þurfum að horfa til þess sem kallað er á ensku, með leyfi forseta, „worst case scenario.“ Við verðum að horfa til þess sem mögulega gæti gerst í verstu tilfellum, í einhvers konar refsiskyni við stóra samhengið, NATO-mekanismann — og við erum á óvinalista Rússa, munum það, við erum skilgreindir óvinir. Ef til þess kæmi að magtin yrði sýnd með því að klippa á lífæðarnar neðansjávar skulum við hugsa til þess að það eru aðrir kostir í háloftunum sem heita gervitungl. Elon Musk með Starlink-áætlun upp á 35.000 gervitungl gæti gagnast okkur á viðsjárverðum tímum og fyrr því að við erum sambandslaus á vegum úti allt of víða um landið. (Forseti hringir.) Ég bið um að þjóðaröryggisráð hugi strax að mögulegum samningum um aðgang að gervitunglum.