Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við Íslendingar höfum lagt okkar af mörkum í því að stuðla að friði, höfum t.d. verið fljót að viðurkenna þjóðir sem þurftu á stuðningi að halda eftir erfiðan kúgunartíma Sovétmanna, eins og var í Eystrasaltsríkjunum. Við höfum að langmestu leyti nýtt utanríkisstefnu okkar til farsældar að mínu mati. Stærsta breytan í því að við erum talin friðelskandi þjóð, að við beitum okkur fyrir lýðréttindum og mannréttindum hvar sem við komum, er að við erum með sterka rödd og við erum ekki síst með sterka rödd af því að við höfum verið þátttakendur, stofnendur, í Atlantshafsbandalaginu, sem sumir vilja alls ekki heyra nefnt friðarbandalag. Ég er eindregið á því að það hafi stuðlað að friði og öryggi í álfunni og þar með byggt enn frekar undir grunninn að því sem við teljum vera til farsældar í vestrænum lýðræðisríkjum, þ.e. frelsi, mannréttindi, að það sé með eindregnum hætti viðurkennt og ekki síður talað fyrir því. Ég heyri að það er áfram þessi viðkvæmni af hálfu Vinstri grænna. Um leið og við segjum að við eigum að halda áfram að líta á þjóðaröryggisstefnuna í breiðu samhengi, líta til fjölþátta ógna, líta á loftslagsvána sem er þjóðarógn ef við tökum ekki rétt á málum þar, þá verðum við líka að líta til þess veruleika sem er í dag. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála Birni Bjarnasyni þegar hann segir að öll rök mæli með því að íslensk stjórnvöld stígi enn fastar til jarðar en birtist í þessari þjóðaröryggisstefnu, tillögunni sem við erum að ræða hér í dag. Telur hann að það þurfi að stíga fastar til jarðar? Er hann sammála Birni Bjarnasyni þegar að því kemur?