Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tel einmitt að varnarbandalagið sem NATO er — tilgangur varna er að tryggja frið og öryggi þegna. Þess vegna er hægt að segja að þetta sé að vissu leyti friðarbandalag. Ég tók eftir því að hv. þingmaður talaði um að það ætti að vera endurmat, ég held hann hafi notað það orð, og skoðanir á því sem við ættum að gera betur. Það er það sem ég hef verið að kalla eftir, að við einfaldlega metum það því að það eru skiptar skoðanir meðal sérfræðinga. En ég er á því að það sé ákveðinn fælingarmáttur í fastri viðveru og ég er ekki að tala um landher, það var ekki landher hér síðast. Við þurfum að efla bæði loftrýmisgæslu og eftirlit okkar á þessu svæði og ekki síst með tilliti til þess hvernig þróunin er að verða á norðurslóðum. Og við erum ekki búin að nefna Kína enn þá í þessari umræðu, sem er risaáhrifavaldur, m.a. í tengslum við norðurslóðir, þannig að við verðum að taka (Forseti hringir.) á þessu máli af festu og vera óhrædd við að skoða hluti sem kunna að vera (Forseti hringir.) viðkvæmir innan stjórnarflokkanna. Við verðum að gera það út frá varnar- og öryggishagsmunum þjóðarinnar.