Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:10]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Með samþykkt þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland árið 2016 fól Alþingi ríkisstjórninni að fylgja eftir stefnu um þjóðaröryggi, stefnu sem tryggir sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Þjóðaröryggi byggist á skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi, lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti allra og sjálfbæra þróun sem og afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Þjóðaröryggisstefnan hefur vissulega staðið fyrir sínu en nú þarf að endurskoða hana í ljósi núverandi stöðu hér heima sem erlendis.

Samfélagið tekur hratt breytingum og því er afar mikilvægt að við séum sífellt á varðbergi. Í því ljósi er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að greina öryggis- og varnarþörf Íslands með það sjónarmið að tryggja þjóðarhagsmuni og þjóðaröryggi okkar til lengri tíma. Pólitísk sátt er leiðarljós í allri vinnu við þjóðaröryggi þar sem stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum er órjúfanlegur hluti þess. Markmið almannavarna er vissulega að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- og heilsutjóni eða að umhverfi og eignir verði fyrir tjóni, hvort sem það er af völdum náttúruhamfara, af mannavöldum, vegna farsótta eða hreinlega vegna hernaðaraðgerða.

Við búum hér í friðsömu landi og fyrir það getum við verið afar þakklát. Við þurfum þó að vera tilbúin til að bregðast við ef þess þarf og fyrirbyggjandi aðgerðir sem tryggja öryggi Íslands og Íslendinga leika þar lykilhlutverk. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að unnið verði áfram á grundvelli þjóðaröryggisstefnu Íslands en kallað er eftir frekari skoðun á þeim fjölþættu ógnum sem samfélög standa frammi fyrir vegna örra tæknibreytinga og einnig vegna ýmissa áskorana. Breytingar þær sem forsætisráðherra leggur hér fram í átta liðum á þjóðaröryggisstefnu Íslands eru til þess fallnar að auka skýrleika stefnunnar. Lögð er til grundvallar víðtæk nálgun á öryggishugtakið og mikilvægi samhæfingar innan stjórnkerfisins í því skyni að ná markmiðum hennar. Það er af miklu að taka enda fjölmörg atriði sem við verðum að huga að hvað varðar öryggi þjóðarinnar.

Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af óblíðri náttúru og náttúruhamförum. Síðustu misseri hafa landsmenn séð mikilvægi öflugra almannavarna hér á landi en brugðist hefur verið við þar sem látið hefur undan. Þó er ljóst að þörf er á að efla almenna kerfið enn frekar ásamt því að tryggja viðunandi aðbúnað og starfsaðstæður. Þá er einnig nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að tryggja öfluga og skilvirka enduruppbyggingu eftir náttúruhamfarir. Þjóðaröryggisstefnan fjallar ítarlega um vernd mikilvægra samfélagsinnviða, löggæslu- og öryggismál og inniheldur aðgerðaáætlun fyrir hvert þessara sviða. Leggja ber kapp á að þessum aðgerðaáætlunum verði framfylgt, það er afar mikilvægt. Nú þegar er búið að hrinda af stað átaki til að fjölga í lögreglunni svo að það er greinilegur vilji til staðar til að bæta það sem bæta þarf.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er í stöðugri mótun og tekur mið af þróun öryggismála á hverjum tíma sem er afar mikilvægt. Íslendingar verða hverju sinni að horfa til hagsmuna sinna í öryggis- og varnarmálum sem eru samofnir hagsmunum annarra Atlantshafsbandalagsríkja og aðlaga sig að þeim veruleika sem blasir við hverju sinni. Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum á að vera hluti af þjóðaröryggisstefnu og taka verður mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, t.d. náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum. Tryggja þarf að áfram verði öflug umræða um fæðuöryggi þjóðarinnar. Við búum nefnilega við breyttan raunveruleika. Stríð geisar í Evrópu og nýafstaðinn heimsfaraldur plagar enn stærstan hluta heimsins. Í landi eins og Íslandi á ekki að þurfa að reiða sig á innflutning matvæla til að geta fætt þjóðina. Það er þjóðaröryggismál að fæðuöryggi þjóðarinnar sé tryggt og að við séum sjálfbær þegar kemur að grunninnviðum. Til þess þurfum við að tryggja innlenda matvælaframleiðslu og styðja við bakið á henni. Við búum yfir kröftugum stéttum matvælaframleiðenda, en rekstrargrundvöllur þeirra fer dvínandi og nýliðun því miður minnkandi. Vissulega leiðir það til minnkandi framleiðslu á matvælum og þetta er því miður þróun sem við verðum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir.

Í erfiðum aðstæðum, sem vonandi koma ekki upp hér á landi, er einmitt nauðsynlegt að hafa mat og drykk. Það er jafn mikið öryggismál og hvað annað. Tryggja þarf matvælaframleiðendum á Íslandi sanngjörn starfs- og samkeppnisskilyrði og ýta undir nýsköpun í allri matvælaframleiðslu. Sækja þarf fram í íslenskum matvælaiðnaði og draga fram sérstöðu íslenskra matvæla. Áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda þjóðarinnar er mikilvægt leiðarljós í öllum iðnaði. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þar sem kveðið er á um að stjórnvöld útfæri fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi þar sem markmiðið er að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni. Þetta er tillaga sem mér finnst mjög mikilvægt að við náum að tryggja að komist hér í gegn.

Ég þreytist ekki á að ræða mikilvægi orkuöryggis en orkuöryggi er þjóðaröryggismál. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara flutningskerfi sem er viðnáms- og áfallaþolið. Við sjáum það kristaltært hve stóran þátt orkan spilar í öryggi þjóða þegar við horfum til stöðunnar sem nú er í Evrópu. Við erum heppin með þá orkukosti sem við höfum en við sjáum blikur á lofti og megum ekki sofna á verðinum. Við getum fyrirbyggt orkuskort hér á landi til framtíðar en við þurfum einnig að tvöfalda dreifikerfi raforku og efla það ásamt því að við þurfum að horfa til þess hvernig mögulegt er að afla frekari orku hér í landi. Þetta er nauðsynlegt skref sem við þurfum að taka en þó vissulega varlega og í sátt við náttúru og samfélag. Þannig getum við tryggt orkuöryggi okkar þegar á bítur. Við Íslendingar könnumst of vel við afleiðingar náttúruhamfara og óveðurs á orkuöryggi samfélaga. Einnig sjáum við stríðsrekstur í Evrópu þar sem ráðist er á orkuinnviði og dreifikerfi en ef það tekst þá getur almenningur einungis reitt sig á kerti. Heimili og atvinnulíf lamast án orku. Náttúruhamfarir, óveður, jafnvel árásir á orkuinnviði er eitthvað sem við þurfum að vera búin undir. Við getum þakkað þeim sem á undan okkur fóru og gerðu gerbyltingu þegar hitaveita var lögð í hús á sínum tíma. Við stöndum frammi fyrir eins verkefnum í dag ef við ætlum bæði að tryggja orkuöryggi sem og farsæld þjóðarinnar.

Í nýrri þjóðaröryggisstefnu, sem er hér til umræðu, verðum við að hafa skýr markmið og einnig að framfylgja þeim. Efla verður framleiðslu og dreifingu á orku svo við séum sjálfum okkur nóg. Þetta varðar ekki einungis orkuöryggi heldur er þetta grunnskilyrði fyrir því að við klárum orkuskiptin sem við höfum skuldbundið okkur til sem þjóð að ná. Í orkukapphlaupinu er einmitt mikilvægt að við séum ekki að draga lappirnar því við höfum allt sem til þarf til að tryggja orkuöryggi þjóðarinnar sem og til að ná settum markmiðum. Það væri í raun grátlegt ef kjöraðstæður Íslands yrðu ekki nýttar.

Virðulegi forseti. Við sjáum aukna hörku í glæpastarfsemi á Íslandi. Síðustu vikur hafa fregnir af hrottalegum árásum og auknum umsvifum glæpasamtaka verið daglegt brauð. Lögreglan gerir allt það sem hún getur með þann mannafla og þá tækni sem hún hefur í höndum sér. Að geta gengið um götur Íslands án ótta við líkamsárásir, skot- eða stunguárásir eða rán er öryggismál. Það liggur fyrir að það þarf að taka á þessum málaflokki af krafti. Að auki hafa netárásir færst í aukana. Hver sem er getur orðið fyrir slíkum árásum. Einstaklingar, fyrirtæki sem og stjórnvöld. Nær öll þessi starfsemi fer fram á netinu í dag. Þar skilja einstaklingar eftir sig stafræn fótspor sem jafngilda fingraförum, að mér skilst. Við endurskoðun nýrrar þjóðaröryggisstefnu verðum við einnig að fjalla um það hvernig við mætum þessum nýja veruleika þar sem sönnunargögn eru óhefðbundin. Þá kemur til álita hvernig lögreglan eigi að rannsaka þessi mál með notkun stafrænna fótspora.

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland á að treysta og efla undirstöðu þjóðaröryggis Íslands til langs tíma á grundvelli virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis. Mikilvægasta skylda íslenskra stjórnvalda er að tryggja öryggi borgaranna. Stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð og stjórnvöld eru tilbúin til þess. Ég fagna þessari nýju þjóðaröryggisstefnu en það sýnir sig þegar á reynir, líkt og þegar óveður geisar eða þegar ráðist er inn í Úkraínu, hvað við getum gert betur. Því er mikilvægt að þjóðaröryggisstefna Íslands sé einmitt endurskoðuð reglulega.