Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:35]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir andsvarið, það er bara fínt að fá þetta fram. Fyrir örfáum árum var þessi umræða um flutningskerfi raforku ekki á þessum stað. Það þurfti fárviðri sem gerði heilu landsvæðin rafmagnslaus svo dögum skipti til. Þetta er fyrir þremur árum í næsta mánuði, það vantar 10 til 12 daga upp á að það verði þrjú ár. Þar á undan var bara mikið skeytingarleysi víða varðandi þessa uppbyggingu og vantaði almenna og góða umræðu um mikilvægi slíkrar framkvæmdar. En ég held að við séum komin á þann stað núna að þjóðin sé almennt farin að sjá ljósið og þingheimur líka.

Mér fannst þetta líka ágætlega orðað í þessum breytingartillögum við þjóðaröryggisstefnuna, sem snýr einmitt að því að við vinnum þetta með norrænu löndunum og okkar nágrannaþjóðum. En það er ekki minnst á Atlantshafsbandalagið í þessu, varðandi alþjóðasamtök, sem er kannski viðkvæmt fyrir einhverjum, að þess sé getið í pappírnum. Ég veit ekki hvar hv. þingmaður stendur varðandi þann þátt, það væri eðlilegt að minnast á það með beinum hætti í breytingartillögunum.