Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:37]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. NATO er reyndar nefnt í greinargerðinni. Ég sá hins vegar ekki í fljótu bragði að Sameinuðu þjóðirnar væru nefndar, sem ég held að væri alveg jafn mikilvægt að hafa á þeim upptalningarlista. Það er því miður þannig í mörgum löndum, en ég vil þó meina að það sé sérstaklega eitthvað sem við Íslendingar eigum til að gera, að menn byrja ekki að hugsa um hlutina fyrr en eftir að eitthvað slæmt hefur gerst. Hvort sem það er raforkuleysi eða stríð í nágrenni við okkur, heimsfaraldur — við erum alltaf tilbúin að fjárfesta í hlutunum þegar eitthvað hefur gerst.

Fyrir 10–15 árum var skrifuð skýrsla af nokkrum nóbelsverðlaunahöfum í hagfræði um það hvort skaðaminnkunaráhrif í hamförum borguðu sig, eða það sem á ensku kallast, með leyfi forseta: „Disaster Risk Reduction“. Þessir nóbelsverðlaunahafar komust að því að fyrir hvern einn dollara sem eytt var í forvarnir gagnvart hamförum, gagnvart krísum, spöruðust sex dollarar í viðbragðinu. Við erum nýbúin að eyða fullt af peningum í faraldur. Fyrir hverjar 6 kr. sem við eyddum í það hefðum við getað sparað okkur heilmikið.