Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. forsætisráðherra. Ég held að þetta hafi verið afar gagnleg umræða og tel að það sé nú svona sameiningar- og samstöðuþráður í þessu öllu. Við viljum landinu okkar allt. Við viljum varðveita fullveldi, lýðræði, frelsi og mannréttindi og gera það m.a. út frá þjóðaröryggisstefnunni. Ég get talað fyrir mína hönd, eftir að hafa hlustað, og dregið fram að þessi breiða nálgun skiptir mjög miklu máli. Það breytir því ekki að við erum með ákveðnar áherslur. Ég held að það sé eitthvað sem við í utanríkismálanefnd verðum að fara vel yfir, þ.e. varnar- og öryggismálahlutann, að breyttu breytanda, eftir þessa hörmulegu tíma frá því í lok febrúar og ofbeldi Rússa — hvort við séum einfaldlega að gera nægilega mikið fyrir varnir og öryggi landsins þar. Að öðru leyti vil ég taka undir þennan samstöðutón. Ég vil líka taka undir að það er mikilvægt að innlend greiðslumiðlun verði skoðuð sérstaklega. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra að tvennu, tæknilegs eðlis. Þetta er breytingartillaga. Af hverju leggur hæstv. ráðherra ekki fram nýja þjóðaröryggisstefnu og gerir hana heildstætt? Það verði þá bara reglan að við verðum með nýja þjóðaröryggisstefnu sem við ræðum hverju sinni. Yrði þá eitthvað því til fyrirstöðu að utanríkismálanefnd legði stefnuna fram svo breytta? Síðan er hitt, að hæstv. ráðherra nefndi að mat á stöðunni í varnar- og öryggismálum hefði verið gert 2021. Ég man ekki til þess, hvorki þá eða nú, að samráð hafi verið haft við utanríkismálanefnd í þessu. Mér finnst svolítið að öryggishlutverk og lögbundið hlutverk utanríkismálanefndar þegar kemur að varnar- og öryggismálum sé að fara beint yfir til þjóðaröryggisráðs (Forseti hringir.) og fólk fríar sig með að þjóðaröryggisráð sé að fjalla um það, en utanríkismálanefnd verður m.a. að hafa aðgang að upplýsingum um þetta mat sem er gríðarlega mikilvægt.