Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og velti vöngum yfir tvennu. Í fyrsta lagi, hvers vegna breytingartillaga? Ég átti þess vegna von á því að það yrðu miklu umfangsmeiri breytingar á þjóðaröryggisstefnunni, en þegar á hólminn var komið og við vorum öll sammála um það í þjóðaröryggisráði að við ætluðum að gera mjög hófstilltar breytingar þá fannst mér meiri bragur á því, í staðinn fyrir að leggja fram nýja stefnu, að þetta myndi snúast um tiltölulega litlar breytingar á góðri stefnu. Það breytir því ekki að stefnan verður auðvitað alltaf borin upp fyrir Alþingi í heild sinni. Ef breytingarnar verða samþykktar þá verður stefnan alltaf borin upp svo breytt fyrir þingið þannig að það breytir í raun og veru ekki heildarniðurstöðunni, ef hv. þingmaður veltir því fyrir sér.

Hvað varðar ástandsmatið þá finnst mér þetta bara góð athugasemd. Sérfræðihópur vann þetta mat síðast fyrir þjóðaröryggisráð. Það var svo sent til þingsins og rætt hér og sú verður raunin aftur. Mögulega ætti samráð við utanríkismálanefnd að fara fram fyrr í þessu ferli og ég tek þá ábendingu og kem henni áleiðis til ráðsins, því að mér finnst í sjálfu sér mikilvægt að við skerpum á því hvert sé hlutverk utanríkismálanefndar og hvert sé hlutverk þjóðaröryggisráðs. Á köflum hefur mér þótt eins og einhverjir úti í samfélaginu, ekki hv. þingmenn en aðrir aðilar, hafi mögulega væntingar til þess að þjóðaröryggisráð sé beinlínis framkvæmdaraðili. Svo er ekki því að við erum samráðsvettvangur þar sem utanríkisráðherra situr, sem fer auðvitað með varnarmálin; dómsmálaráðherra, sem fer með löggæsluna og Landhelgisgæsluna; fulltrúi Landsbjargar með björgunarsveitirnar í landinu o.s.frv. Því erum við samráðsvettvangur og nálgumst málið sem slíkt. En ég held að það sé góð ábending að skerpa á þessum hlutverkum.