Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það fór ekki svo að ég kæmist ekki aðeins í að ræða Evrópusambandið. (Gripið fram í.) Fyrst vil ég fjalla eitt augnablik um ástandsmatið. Samkvæmt lögum er það lögbundið hlutverk ráðsins að leggja mat á ástand og horfur en samráðið við utanríkismálanefnd, samtalið eða hvernig sem við orðum það, er eitthvað sem ég tek til baka. Ég var á þingi Evrópuráðsins, annarrar evrópskrar stofnunar þar sem við Íslendingar erum nú í formennsku, að ræða bakslag í lýðræðismálum. Ég held að við ættum að nýta næstu sex mánuði sem við erum í formennsku til þess að leggja virkilega áherslu á þessi málefni og ég tel að við getum gert það þrátt fyrir að við stöndum utan Evrópusambandsins.

Ég er ekki að segja að ekki sé margt gott sem hefur komið frá Evrópusambandinu en ég held að við Íslendingar eigum mikil tækifæri til þess að beita okkur á vettvangi Evrópuráðsins í samfélagi Evrópuþjóða, innan evrópska pólitíska samfélagsins sem nú hefur verið komið á laggirnar þar sem Evrópuleiðtogar munu hittast einu sinni til tvisvar á ári á næstunni til að tala fyrir þessum skýru sjónarmiðum sem við hv. þingmaður erum sammála um; lýðræði, mannréttindum, friði og frelsi.