Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:55]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hrósaði einmitt a-lið 1. mgr. þar sem komið var inn á þetta lýðræðislega stjórnarfar í breytingartillögunum. Í NATO-þinginu er þetta eiginlega orðið að meginumræðu síðustu ár, þ.e. hvernig við verjum lýðræðið. Umræðan um lýðræðið er að verða ein stærsta umræðan. Það kom upp í hug minn þegar maður hugsar til baka. Í apríl 2018 var ég á ráðstefnu á vegum NATO-þingsins í Tyrklandi þar sem verið var að ræða arabíska vorið, þróunina, lýðræðið og ýmislegt. Þarna kemur prófessor við virtan háskóla og segir: Það eru kannski 40 lýðræðisríki í heiminum sem við teljum til vestræns lýðræðis af 200 þjóðríkjum í heiminum, 20% þjóðríkja búa við lýðræði. Það er ekkert sjálfsagt við það og hugtakið er býsna ungt, sagði viðkomandi. Þetta væru ekkert margir áratugir í sjálfu sér. Við myndum aldrei telja vestrænt lýðræði eins og við þekkjum það í öldum. Því er þetta endalaus barátta fyrir lýðræði, frelsi og mannréttindum. Mér fannst ég verða að koma upp og minnast á þetta fyrst hæstv. forsætisráðherra fór inn í þessa umræðu. Í störfum NATO-þingsins er t.d. búið að endurskíra eina nefndina út frá lýðræði, það er komið í nafn nefndarinnar. Það er breyting frá því sem var og gríðarleg áhersla er lögð á þetta.