153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku sat ég, ásamt félögum mínum í Íslandsdeild ÖSE-þingsins, vetrarfund ÖSE í Póllandi. Forseti Úkraínu ávarpaði þingið á fjarfundi og ræddi þá hrikalegu stöðu sem uppi er í landinu. Þetta var 24. nóvember eða níu mánuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu. Fyrir níu mánuðum sat ÖSE-þingið líka saman á fundi í Vín, þ.e. daginn þegar innrásin hófst. Á þeim fundi voru fulltrúar Rússa og Hvít-Rússa á fjarfundi. Síðan þá hafa fulltrúar Rússa og Hvít-Rússa ekki mætt á fundi ÖSE-þingsins vegna þess að þeir hafa ekki getað komist til þeirra landa þar sem fundirnir hafa verið haldnir. Umræðan nú sneri ekki síst að því hvort ástæða væri til að víkja Rússum úr ÖSE-þinginu. Það er auðvitað full ástæða til að velta þeirri spurningu upp þó að sú tillaga hafi ekki verið afgreidd á fundinum. En það er alveg ljóst að það er lítil ástæða fyrir lýðræðis- og mannréttindaríki eins og Ísland, og sem betur fer flesta okkar samstarfsaðila í ÖSE, að sitja á fundi með slíkum fulltrúum vegna þess að morguninn sem þeir réðust inn í Úkraínu hlustuðum við á þessa sömu fulltrúa halda einhverju allt öðru fram. Ástandið í Úkraínu er hrikalegt. Í samstöðumótmælum slökktum við ljósin í þingsalnum og kveiktum á símum okkar og minntumst þess að Úkraínumenn sitja núna í myrkri og kulda. Það er auðvitað erfitt fyrir okkur hér í heitu og huggulegu húsunum okkar á Íslandi að ímynda okkur þær hörmungar sem nú eiga sér stað í Úkraínu. Rússar eru ekki bara búnir að sprengja upp heilu borgirnar, drepa börn og nauðga konum heldur eru þeir líka að frysta þjóðina í hel.