153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í umræðum um fjármálaáætlun 2023 segir dómsmálaráðherra að sérstök áhersla sé gerð, með leyfi forseta, „vegna aðgerða gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þær viðbætur sem birtast okkur í fjármálaáætlun eru til viðbótar miklum framlögum sem komu inn á þessu fjárlagaári.“ Við skulum hafa það alveg á hreinu að það er alveg jafn mikil skipulögð brotastarfsemi núna og þegar þessi fjármálaáætlun var lögð fram í vor. Það eina sem hefur breyst er að fólk hefur fengið að sjá eina birtingarmynd þeirrar starfsemi á myndbandi. Það sem við glímum við hérna er þá annaðhvort vanmat ríkisstjórnarinnar á vandanum eða einhvers konar mænuviðbragð vegna myndbandsbirtingarinnar. Ég hallast að því að um vanmat sé að ræða, rétt eins og um vanmat er að ræða varðandi heilbrigðiskerfið, menntakerfið, félagslega kerfið og margt annað, nema þá hvort tveggja eigi við, mænuviðbragð og vanmat. Lögreglan er að fá 500 milljónir aukalega til að bregðast við skipulagðri glæpastarfsemi annars vegar og svo 900 milljónir til að eiga einhverjar árangurstengdar mælingar þar undir. Hvað það þýðir nákvæmlega er ekki útskýrt frekar í klassískum anda yfirborðskenndrar umræðu um öll málefni. Það er nefnilega ekki nóg að segja bara, með leyfi forseta: „Úthlutun fjármagns á grundvelli árangursmælinga“ — og reyna síðan að útskýra eftir á hvaða árangursmælingar það eiga eiginlega að vera.

Það sem er rosalega áhugavert fyrir þessa umræðu er hins vegar að dómsmálaráðuneytið gerir tillögur til fjármálaráðuneytis um ný og breytt verkefni. Segjum að tillögurnar kosti 37 milljarða. Það sem gerist í kjölfarið er að ríkisstjórnin segir: Nei, þú færð bara 35 milljarða í þessi verkefni. Það sem gerist þá er að dómsmálaráðherra þarf að forgangsraða verkefnum. Það sem hefur gerst er að t.d. verkefni fangelsismála hafa lent undir niðurskurðarhnífnum, kannski verkefni tengd skipulagðri brotastarfsemi líka, hver veit. Við vitum það ekki, þingið veit það ekki því að tillögur dómsmálaráðherra til nýrra og breyttra verkefna er víst trúnaðarmál að beiðni fjármálaráðherra. Af hverju hef ég ekki hugmynd um og langar til að vita það. Þess vegna hef ég beðið um svar við þeirri spurningu í fjárlaganefnd.