153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Upphaflega ætlaði ég að koma hér í tengslum við dag íslenskrar tungu. Það getur hins vegar verið erfiðara að komast að undir dagskrárliðnum störf þingsins en fyrir úlfalda að fara í gegnum nálarauga. Það ræði ég kannski síðar undir liðnum fundarstjórn forseta. Hér ætla ég að halda mig við íslenskuna því að allir dagar eru dagar íslenskunnar. Í hröðum tækni- og samfélagsbreytingum mæta tungumálinu töluverðar áskoranir. Í þeim áskorunum felast hins vegar líka stórkostleg tækifæri sem við grípum og verðum að halda óhikað áfram að grípa til að ná enn betri tökum á því. Tæknin getur nefnilega stórbætt aðgengi að íslenskunni fyrir þá sem eignast íslenskuna að öðru tungumáli og getur auðveldað okkur sem eigum íslenskuna að móðurmáli notkun hennar. Nýjar leiðir til miðlunar og ör þróun máltækni breyta daglegu lífi okkar allra. Hvernig var lífið aftur án vélþýðinga, tölvuyfirlestrar, opinna orðabóka og orðasafna, raf- og hljóðbóka? Við höfum þegar sett okkur það mikilvæga markmið að íslenska verði jafnoki annarra tungumála í stafrænni tækni.

Hin stóra áskorunin er íslenskunám innflytjenda en hún fjölgar jafnframt virkum notendur tungumálsins og eftir því sem fleiri læra og tileinka sér málið aukast líkurnar á að íslenskan lifi og þróist áfram. Við þurfum að halda áfram að afla þekkingar um íslensku sem annað mál, bæta tækifæri kennaranna til símenntunar, auka aðgang og framboð af námsefni og námskeiðum. Samfélagið allt þarf svo að styðja við íslenskunám innflytjenda í daglegu lífi. Þeir sem læra íslensku á námskeiðum fá ekki alltaf nægileg tækifæri til að nota málið. Prófum að hefja öll samtöl á íslensku áður en við grípum til annars tungumáls. Íslenskan er okkar allra og við erum öll íslenskukennarar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)