153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Undanfarnar vikur og mánuði hefur ráðamönnum þjóðarinnar verið tíðrætt um neyðarástand hér og hvar í samfélaginu. Síðast var það vegna ungmenna sem hafa vopnvæðst en þar áður vegna fólks á flótta undan stríði Rússa í Úkraínu. Í síðustu viku fengum við fregnir af neyðarástandi í fangelsismálum og því óskaði ég eftir að fá að eiga orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra um ástandið í refsivörslukerfinu. Í byrjun árs sendi Fangavarðafélag Íslands frá sér ítrekaða áskorun vegna ástand öryggismála í fangelsum landsins og það hefur Afstaða, félag fanga, einnig gert undanfarin ár. Svo virðist sem lítið hafi verið brugðist við því neyðarkalli enda hefur fangarýmum og fangavörðum bara fækkað og öryggi innan fangelsa minnkað samhliða því. Fangelsinu á Akureyri var lokað, fangelsisrýmum fækkað og biðlistar eftir afplánun lengjast stöðugt meira með tilheyrandi tjóni fyrir dómþola sjálfa, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt. Samkvæmt upplýsingum frá fangelsisyfirvöldum hefur rekstrarvandi fangelsa verið viðvarandi síðastliðinn áratug þrátt fyrir fjölgun landsmanna og lengri refsidóma. Rúmlega 300 manns bíða afplánunar en 50 dómar hafa fyrnst á síðustu tveimur árum vegna skorts á fangelsisplássum — 50 dómar. Þá eru a.m.k. aðrir 300 sem bíða eftir samfélagsþjónustu og um 100 dómþolar hafa farið til útlanda og finnast ekki þegar boðað er til afplánunar.

Herra forseti. Markmið laga um fullnustu refsinga er að refsing fari fram með öruggum og skilvirkum hætti svo sérstök og almenn varnaðaráhrif refsinga séu virk en varla er hægt að búast við að svo sé þegar fangar geta ekki hafið afplánun og brotaþolar horfa upp á gerendur sína ganga um göturnar eins og ekkert hafi í skorist. Dómþolar bíða með að hefja uppbyggingu lífs síns eða hreinlega treysta því bara að dómarnir fyrnist og þeir þurfi því ekki að taka út sína refsingu. Þetta eru afleit skilaboð til samfélagsins.

Nú hafa fregnir borist vegna fangahópa sem eiga í deilum innan veggja fangelsanna og er talið að fjölga þurfi fangelsum, þá sérstaklega opnum úrræðum eins og algengari eru á Norðurlöndum, sem og þarf að efla betrunarþátt refsinganna, svo sem endurhæfingu, meðferðir og geðheilbrigði til að fækka endurkomum í fangelsin, en þær áherslur hafa haft verulega jákvæð áhrif í fangelsismálum Norðurlanda. Þá hefur föngum með geðrænar áskoranir fjölgað á undanförnum árum á sama tíma og við fáum fregnir af því að læknir geðheilsuteymisins hafi sagt upp störfum og að teymið sjálft sé að minnka afköst sín og þjónustu vegna aðstöðuleysis og mikillar fíkniefnaneyslu fanganna. Þá hefur geðsvið Landspítala ítrekað neitað að taka við föngum með geðrænan vanda vegna fíknivanda fanganna.

Já, herra forseti, það er líklega óhætt að segja að neyðarástand ríki í fangelsismálum og því ekki úr vegi að spyrja hæstv. ráðherra til hvaða ráðstafana hann hefur tekið núna á árinu vegna öryggismála í fangelsum landsins til þess að bregðast við því ákalli sem ég nefndi hér áðan frá félagi fanga og Fangavarðafélagi Íslands sem hafa borist undanfarin ár. Telur ráðherra, miðað við fjölda fyrndra dóma og langan biðtíma eftir afplánun, að rekstur fangelsa sé í samræmi við markmið laga um virk varnaðaráhrif refsinga? Nú þegar verulegur skortur er á rýmum, kemur til álita að opna að nýju fangelsi á Akureyri til að koma til móts við þennan vanda og opna jafnframt fleiri opin úrræði?

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Kemur til álita að hafa fasta stöðu sálfræðings í hverju fangelsi svo hægt sé að taka á þeim atvikum sem upp koma hverju sinni? Telur ráðherra fangelsi landsins réttan vettvang og þau nægilega í stakk búin til að vinna með einstaklingum með geðrænar áskoranir eða ætti jafnvel að leita annarra leiða en að loka slíka einstaklinga í fangelsi?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort kynin búi við jafna möguleika innan fangelsa landsins með tilliti til möguleika þeirra á opnum úrræðum og nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og að lokum spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Telur hann fangelsi landsins nægilega í stakk búin til að sinna betrunarþætti fangelsisvistarinnar? Hvaða fyrirætlanir hefur ráðherra varðandi börn fanga og aðstöðu til heimsókna eftir svarta skýrslu umboðsmanns barna sem kom út á dögunum?

Þetta eru örfáar laufléttar spurningar til hæstv. dómsmálaráðherra og ég vona að ég fái svör við þeim öllum.