153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fangelsismálastofnun hefur glímt við rekstrarvanda og þurft að grípa til aðhalds og niðurskurðar, m.a. lokunar á fangelsinu á Akureyri sem flestir voru sammála um að hafi verið mjög gott úrræði. Eftir að fangelsinu var lokað þarf að flytja alla gæsluvarðhaldsfanga suður. Stundum eru þetta nokkrir einstaklingar í einu og þarf að hafa hvern út af fyrir sig því að fyrsta varðhald er yfirleitt vegna rannsóknarhagsmuna og fólk er í einangrun. Þá skilst mér að tveir lögreglumenn aki hverjum fanga og stundum er verið að flytja nokkra gæsluvarðhaldsfanga í einu. Þá þarf aukafólk á vakt á lögreglustöðinni fyrir norðan því að það geta ekkert allir yfirgefið lögreglustöðina á sama tíma.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki málshefjanda spurningunni um það hvort opna ætti fangelsið á Akureyri aftur en fór að fabúlera eitthvað um óhagkvæmni. En það þarf í framhaldi skoðunar á fangelsismálum að reikna út þann kostnað sem hefur hlotist af því að leggja niður fangelsið á Akureyri og mjög líklegt að það sé í raun ekki ódýrara þótt það kunni að birtast þannig í bókhaldi Fangelsismálastofnunar. Það þarf nefnilega líka að skoða aukinn kostnað lögreglunnar sjálfrar.

En, herra forseti, þetta snýst ekki bara um kostnað, þetta snýst líka um mannréttindi. Sem dæmi má nefna að gæsluvarðhaldsfangar fyrir norðan eru lengur í höndum lögreglu eftir handtöku því að það á eftir að ferja þá suður eftir úrskurð dómara og svo er auðvitað það mikilvæga sjónarmið að fangar utan af landi fái að afplána þar sem auðveldara er að fá fjölskyldu og vini í heimsókn. Þetta eru mikilvæg mannréttindi sem geta örugglega í einhverjum tilvikum hjálpað til betrunar. Áður en ákveðið verður hvar á að byggja upp þarf sem sagt að skoða vel afleiðingar af lokun fangelsisins á Akureyri og hvort ekki væri rétt að byggja þar upp fangelsi aftur.