153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa mikilvægu umræðu hér. Á dögunum fengum við fangelsismálastjóra og fjármálastjóra ráðuneytisins inn í fjárlaganefnd til að fara yfir þá mjög svo alvarlegu stöðu sem uppi er varðandi fjármögnun fangelsismála hér á landi. Það var líka áhugavert að taka samtal við þessa mætu gesti og reyna að átta sig á því af hverju við erum komin í þessa stöðu. Fangelsismálayfirvöld hafa búið við aðhaldskröfu allt frá hruni. Það má þó ekki gleyma því að við höfum tekið í gagnið nýtt og glæsilegt fangelsi á Hólmsheiði síðan þá. En ekki síður er það sú þróun sem hæstv. ráðherra kom aðeins inn á áðan, að dómar eru að þyngjast. Við höfum einmitt verið að leggja slíkt til í þessum sal í lagaframkvæmd. Eins hefur verið farið í átak í ákveðnum brotaflokkum. Við höfum sett átak af stað í löggæslumálunum okkar og við höfum verið að byggja upp dómstólakerfið okkar. En það virðist vera að síðasti anginn í þessu ferli, fangelsin sjálf, hafi orðið út undan. Því er mikilvægt að við séum að bæta úr því núna með bæði fjárauka og fjárlögum, algjörlega nauðsynlegt.

En mig langaði líka að koma inn á það sem ég hef haft dálitlar áhyggjur af og umboðsmaður Alþingis, sem við fengum á fund okkar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, benti á í OPCAT-eftirliti sínu, það er vandamál sem uppi er þegar um er að ræða að tvö ráðuneyti komi að málum. Í OPCAT-eftirlitinu er sérstaklega vísað í heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisþjónustu inni í fangelsunum og/eða þegar þarf í rauninni að færa fanga úr fangelsum og inn á heilbrigðisstofnanir. Þar þurfum við að bregðast við og ekki síður í námsúrræðum. Við verðum að muna það að þrátt fyrir að fangelsin séu ofboðslega mikilvægar stofnanir og mikilvæg réttarbót og öryggisbót fyrir þá sem hafa orðið fyrir ofbeldisglæpum er fangelsisvist fyrst og fremst betrunarvist. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að öryggi fanga sé tryggt alla tíð. En þjónustan þarf líka að bera þess merki að um sé að ræða betrunarvist.