153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:38]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Kemur það á óvart að þörf fyrir refsivist hefur aukist svo mjög? Hæstv. ráðherra sagði hér í upphafi að þetta væri ófyrirséð, þessi mikla fjölgun fólks í varðhaldi og hin aukna þörf fyrir fangarými. Það er ekki rétt. Við höfum ítrekað fengið skýrslur frá lögreglustjóra og lögregluliði, sem teknar hafa verið saman. Alveg frá því 2017 þegar ég kom á þing höfum við verið vöruð við því að í landinu væru að byggjast upp hópar í skipulagðri glæpastarfsemi. Lögreglan hefur í raun verið algerlega vanbúin og vanmáttug hvað það varðar að geta stigið inn eins og hún óskaði eftir hér fyrir fjórum árum.

En við þurfum að líta að rót vandans. Þessi skipulagða glæpastarfsemi sem við erum að takast á við núna er bendluð beint við fíkniefnamarkaðinn, mansal og vændi sem dæmi. Hvers vegna er allur þessi fíknivandi? Hver er rótin að öllum vandanum? Hvers vegna eykst svona ofboðslega þörfin fyrir það að stinga fólkinu okkar í steininn? Ég tek undir það með hv. þm. Jódísi Skúladóttur, sem ég segi að hafi hitt naglann þráðbeint á höfuðið, að það er gríðarlegur fíknivandi, fordæmdur fíknivandi, sem við erum að glíma við í samfélaginu í dag. Það eru yfir 700 einstaklingar á biðlista eftir hjálpinni á sjúkrahúsinu Vogi. Fólkið deyr á biðlistum þegar það er að biðja um hjálp, fólk sem þráir ekkert annað en að fá bata. Það er engin heildstæð lausn utan um þetta fólk þannig að fyrir því liggur ekkert annað en að fara út á götuna aftur, (Forseti hringir.) detta í það og fremja einhver afbrot og jafnvel leggja stund á skipulagða glæpastarfsemi til að fjármagna eigin neyslu.