153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:41]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir þessa mikilvægu umræðu. Þetta er búið að vera í umræðunni núna í nokkra daga, mögulega viku eða eitthvað svoleiðis, varðandi stöðu fangelsanna. Mér finnst svarið liggja í augum uppi, það þarf að stórefla fangelsin líka með fjármagni, ekki bara fangaverðina. Ísland er lítið land og auðvitað hefur föngum fjölgað en við höfum samt möguleika á að takast á við þennan vanda með meira fjármagni í sálfræðiþjónustu, fræðslu, með því að fjölga stöðugildum sálfræðinga og geðlækna í fangelsum landsins, af því að núverandi nálgun virðist ekki skila árangri. Við gætum prófað að fara nálgast þennan vanda á mannúðlegan hátt í stað refsiverðrar nálgunar, enda snýst fangelsi um betrun og við eigum það til að gleyma því.

Svo er náttúrlega stærri vandi sem við þurfum að horfa til. Fangaverðir þurfa auðvitað líka að finna fyrir öryggi, það er alveg skýrt. En svarið liggur ekki í vopnavæðingu fangavarða, eins og við höfum séð í fréttum. Síðan látum við stöðu fanga vera óbreytta og úrræðaleysið fyrir fanga sem glíma við geðræn vandamál er hreinlega til skammar. Ef Landspítalinn er í raun að hafna föngum sem glíma við geðrænar áskoranir því að þeim fylgir fíkniefnavandi er það grafalvarlegt og sýnir að vandinn er fjölþættur. Landspítalinn á Hringbraut er með sérhæfða endurhæfingargeðdeild fyrir fólk með geðraskanir sem síðan sameinaðist fíkniefnadeildinni sem olli því að tíu legupláss töpuðust. Við eigum að hafa kerfin okkar á þann veg að þessar deildir geti tekið við fólkinu sem þær eru gerðar til að taka á móti óháð stöðu fólks í samfélaginu. (Forseti hringir.) Hvort sem það er einhver almennur borgari úti í bæ eða manneskja sem er að afplána dóm þá eiga allir rétt á aðstoð vegna veikinda.