153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég biðst velvirðingar á því ef þetta hefur verið misskilningur af minni hálfu. Ég tek undir það og veit að í dómum er tekið tillit til langs málsmeðferðartíma. Það eru flöskuhálsar í þessu kerfi sem ég hef boðað hér í ræðum og riti síðan ég kom í dómsmálaráðuneytið sem þarf að vinna á. Þeir eiga við bæði í rannsókn, saksókn og síðan hjá dómstólum og í afplánun. Við höfum sérstaklega verið að horfa til þessara flöskuhálsa til að leysa þetta sem ég vil lýsa sem einhverju færibandi sem stoppar á allt of mörgum stöðum með þessum afleiðingum m.a. Þetta skref sem er stigið núna í fangelsismálum er klárlega áfangi á þeirri leið. Þetta er stórt skref. Það skref sem verið er að stíga hér með breytingartillögum í löggæslumálum og kemur þá inn á saksóknina er með nákvæmlega sama hætti. Þær breytingar sem eru fyrirhugaðar hjá mér í héraðsdómstólakerfinu með sameiningu allra héraðsdómstóla munu auka afköstin á því dómstigi, (Forseti hringir.) alveg klárlega, og reyndar þarf einnig að líta til Landsréttar í þeim efnum.