153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[15:02]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek að sjálfsögðu þessari afsökunarbeiðni hæstv. dómsmálaráðherra. Mér fannst umræðan að mörgu leyti góð og man ekki betur en að ég hafi sérstaklega hrósað hæstv. ráðherra fyrir þann árangur sem hann nær hér, veruleg fjárframlög eru að skila sér inn í þennan málaflokk eftir langa bið á vakt Sjálfstæðisflokksins. Ég vil ítreka það sem ég sagði, að miklir flöskuhálsar í kerfinu eru að leiða til þess að þungir dómar fyrir alvarleg brot; kynferðisbrot, alvarleg ofbeldisbrot, stór og umfangsmikil efnahagsbrot — dómarar skrifa það berum orðum í sínum dómsniðurstöðum að þeir dæmi vægari refsingar en þeir hefðu ella gert vegna málsmeðferðartímans. Svo er það líka staðreynd að biðlistar eru í fangelsum sem gera það að verkum að vegna plássleysis bíða menn afplánunar eftir dómi.