153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[15:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Sigmar Guðmundsson veltir fyrir sér hvaða merkingu menn leggja í orð hvors annars. Ég orðaði það vissulega þannig að ég vildi fara í stríð við skipulagða glæpastarfsemi í landinu. Það er hægt að leggja margvíslega merkingu í þau orð. Ég hef farið yfir það í mörgum orðum, bæði í fjölmiðlum, í ræðum á Alþingi, í skrifum mínum og annars staðar hvernig ég vil gera það. Hv. þingmaður vill fara allt aðrar leiðir í þessum málum heldur en ég hef verið að boða. Hann vill fara forvarnaleiðina, sem ég er reyndar algjörlega sammála en er bara önnur hliðin á peningnum. Það þarf að bregðast við þeim alvarlegu atburðum og þeirri alvarlegu þróun sem er í samfélaginu þegar kemur að skipulagðri glæpastarfsemi. Hv. þingmaður hefur ekki sagt með hvaða aðgerðum hann vilji gera það. Ég kalla það að fara í stríð að fara í átakið sem ég er búinn að boða og fæ núna fjármagn til að fylgja eftir. Við munum sennilega geta fjölgað úr einu teymi í fjögur til fimm teymi í rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi. Það eru stór skref og þungt stigið til jarðar í þeim efnum. (Forseti hringir.) Ég hef kallað það að fara í stríð við þá aðila sem stýra þessu. (Forseti hringir.) Við ætlum að ná árangri í þessum efnum og ætlum ekki að horfa upp á þessa þróun í íslensku samfélagi. Við þurfum að bregðast við gagnvart ungu fólki, þeim sem eru í skólum og á heimilum. (Forseti hringir.) Við þurfum líka að taka á vandanum sem við okkur blasir og það er á ábyrgð okkar þingmanna að svara því.