153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[15:05]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég talaði hvergi um að ég vildi eingöngu leggja til einhverjar forvarnir eða eitthvað slíkt. Það er rétt að það er einungis ein hliðin á þessu. Ég var að benda á, og var það algjört megininntak í minni ræðu, að það er holur hljómur í einhverjum stríðsyfirlýsingum frá flokki sem hefur búið þannig um hnútana að löggæslan, dómstólar og fangelsin hafa verið fjársvelt frá hruni. Slíkt stríð mun ekki skila góðum árangri. Slík orðanotkun skilar ekki góðum árangri. (Gripið fram í.) Er maður þar með að segja að maður vilji ekki að löggæsla sé efld? Hvernig í ósköpunum er hægt að draga þá ályktun af þeim orðum sem hér hafa fallið? Auðvitað er það ekki þannig.

Hitt er annað að maður kvittar ekki upp á allt sem frá hæstv. dómsmálaráðherra hefur komið í þessum efnum. Menn eru komnir á villigötur með einhverri retórík um stríð og vopnaburð, að það sé alltaf eina svarið, án þess að hugsa málið í samhengi við allt annað sem er undir í málaflokknum. Eigum við að ræða hvar stríðið gegn fíkniefnum er statt í heimsbyggðinni? (Forseti hringir.) Eigum við að ræða hver staðan er á málefninu fíkniefnalaust Ísland? (Forseti hringir.) Það gengur ekki að vera með svona innantóma frasa og slagorð. Við verðum að fá einhverjar raunhæfar úrbætur í þessum málaflokki, (Forseti hringir.) einhverja skýra stefnu sem ekki er hægt að smætta niður í einhver orð sem kallast stríð gegn skipulagðri brotastarfsemi.