153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að hv. þingmaður bryddaði upp á því að það væri verið að endurskoða veiðigjöldin. Ef það er tekin tilfærsla á framtíðarveiðigjöldum inn á næsta ár og veiðigjöldum svo breytt, hvaða áhrif hefur það á framtíðarveiðigjöld sem hafa verið lánuð frá árunum 2024, 2025, 2026 eða eitthvað svoleiðis yfir á árið 2023? Ég er að reyna að átta mig á því. Þó að hv. þingmaður segi að þetta séu ekki stórir peningar á hverju ári fyrir útgerðirnar eru þetta samt 500 milljónir á ári, eftir því sem mér skilst, sem eru færðar á ári í nokkur ár yfir á árið 2023. Þegar það er sagt í sömu mund að við ætlum síðan að breyta veiðigjöldunum eða fyrirkomulaginu þar, að það sé eitthvert rosalegt samráð í gangi þar, hvernig spilar það allt þá inn í þetta? Erum við að gefa eitthvað frá okkur? Ég velti því fyrir mér hvort, óháð því hvernig veiðigjöldum verður breytt, þarna verði samt aukalega afsláttur fyrir nokkrar útgerðir upp á 500 milljónir á ári eftir þarnæsta ár.