153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[15:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Frú forseti. Ég tala hér fyrir hönd 2. minni hluta atvinnuveganefndar. Við þekkjum það öll að frá tilkomu kvótakerfisins hafa ríkt deilur um meðferð fiskveiðiauðlindarinnar og þeirra starfa og verðmæta sem hún skapar. Veiðigjöld voru tilraun til að sætta viðvarandi óánægju með aukinni gjaldtöku en þau eru þó því marki brennd að vera allt í senn flókin, ógagnsæ og háð duttlungum stjórnmálanna. Þannig hafa þau t.d. ítrekað verið lækkuð í tíð sitjandi ríkisstjórnar og síðasta lækkun veiðigjalda og sú sem þetta frumvarp tengist er til komin vegna Covid-aðgerða. Árið 2021 var gerð breyting á lögum um tekjuskatt sem hafði í för með sér skattafslátt fyrir fjárfestingu. Hugmyndin var að halda efnahagslífinu gangandi á erfiðum tímum sem var bæði jákvætt og verðugt markmið. Síðan komst ríkisstjórnin að því tæpum tveimur árum síðar að breytingin kemur ekki eingöngu til lækkunar á skatti eins og hugmyndin var heldur, vegna víxlverkunar laga, kemur hún einnig til lækkunar á veiðigjöldum og sú lækkun nemur 2–3 milljörðum kr. á ári. Svo því sé til haga haldið þá verður þetta frumvarp sem við ræðum nú og ætlunin er að afgreiða sem viðbragð við þessari óvæntu og lítt eftirsóknarverðu víxlverkun ekki þess valdandi að þessi milljarðaafsláttur á veiðigjöldum gangi til baka. Það er ekki verið að hækka veiðigjöld með samþykkt þessa frumvarps. Það er eingöngu verið að dreifa veiðigjaldaafslættinum yfir fimm ára tímabil. Kúrfan er þannig flött út.

Nú er það ekki þannig að fyrirtæki, hvort sem þau eru í útgerð eða annarri starfsemi, stökkvi til og kaupi sér skip án aðdraganda. Fjárfestingar í sjávarútvegi eru dýrar og reyndar mun dýrari en í flestum öðrum atvinnugreinum og eru vel undirbúnar. Þess vegna er þessi tiltekni afsláttur á grundvelli fyrningar vegna fjárfestinga til þess fallinn að gagnast eingöngu þeim sem þegar voru búin að taka ákvörðun um kaup á skipi og vegna þess hve tímaramminn er stuttur getum við talað um að hér hafi sumar útgerðir dottið í lukkupottinn, unnið háar fjárhæðir í lækkun veiðigjalda, sem aðrar fengu ekki, án þess að málefnalegar ástæður lægju þar að baki, engar ástæður í raun og veru aðrar en flóknar og ógagnsæjar aðferðir til að reikna út veiðigjöld. Það þarf ekki að vera svona. Það er ekkert lögmál að veiðigjöld séu flókin og ógagnsæ, svo flókin að andsvör hv. þingmanna við framsögumann málsins, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fóru að mestu leyti í að spyrja hana hvernig flokki hennar og hæstv. matvælaráðherra, VG, tókst að láta líta svo út fyrir að hér væri verið að hækka veiðigjöld en ekki lækka eða fresta lækkun. Þetta er náttúrlega rugl, frú forseti.

Viðreisn hefur frá stofnun lagt mikla áherslu á breytta nálgun í sjávarútvegsmálum. Við byggjum stefnu okkar m.a. á þeirri vönduðu vinnu sem auðlindanefndin skilaði af sér árið 2000 og þeim nefndum sem síðar hafa starfað þar sem í öllum tilfellum hefur verið talað um tímabindingu veiðiheimilda sem grunn þess að annars vegar náist sem mest hagkvæmni fyrir þjóðarbúið og hins vegar eignarréttur almennings sé skýr. Tímabinding er grundvöllur þess að við getum sett á markaðsleið í sjávarútvegi, boðið t.d. upp 5% heildaraflahlutdeildar á hverju ári með nýtingarrétti til 20 ára í senn eins og tillögur Viðreisnar hafa verið. Þannig er tryggt að markaðsgjald sé greitt fyrir aðgang að auðlindinni og að útgerðir geti á hverjum tímapunkti treyst á nýtingarrétt í 20 ár. Þessi aðferð er til þess fallin að hámarka þjóðhagslega hagkvæmni veiðanna auk þess að endurspegla með ótvíræðum hætti eignarrétt þjóðar. Þessi leið sem við í Viðreisn auk ýmissa annarra höfum talað fyrir er framtíðarlausn, lausn sem er til þess fallin að leysa áratugalangar deilur. Það er nefnilega ekki bara almenningur sem þolir ekki óvissuna. Svo virðist vera sem útgerðin þoli hana ekki heldur. Ég ætla að leyfa mér að vitna í Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson í Vinnslustöðinni sem sagði í fjölmiðlum um daginn, með leyfi forseta:

„Það er ekki að ástæðulausu sem fyrirtækjum fækkar í sjávarútvegi, einstaklingar í útgerð, sem eiga allt sitt undir pólitíkinni, lifa í stöðugri ógn við að kerfinu verði breytt eða að þeir verði skattlagðir meira.“

Þetta viðtal við forstjóra Vinnslustöðvarinnar var tekið í tilefni af rannsókn sem Kristján Vigfússon, kennari við Háskólann í Reykjavík, vann þar sem fram kom að æðstu stjórnendur stærstu útgerðarfyrirtækja á Íslandi væru mjög óánægðir með starfsumhverfi sitt. Þar kom fram að hávær og neikvæð pólitísk umræða um sjávarútveg og þar með óvissa um framtíð greinarinnar hefði mikil og vond áhrif að mati útgerðarmannanna. Það þarf reyndar ekki pólitíkina til að gagnrýna núverandi stöðu. Ítrekað hefur komið fram óánægja mikils meiri hluta þjóðarinnar með sinn hlut í þjóðarauðlindinni og hvernig sá hlutur er ákveðinn.

En, frú forseti, við erum hér að ræða þetta tiltekna mál. Við erum ekki á móti því sérstaklega. Það er skiljanlega fram komið til að draga úr þeim skaða sem þegar hefur orðið eða öllu heldur að dreifa skaðanum, lækkuninni, til lengri tíma. En við í Viðreisn erum á móti veiðigjöldunum í núverandi mynd. Við teljum opna og sanngjarna markaðsleið í sjávarútvegi vera lokamarkmiðið hér, lokamarkmiðið í átt að sátt. Í millitíðinni þarf að bæta núverandi kerfi. Við höfum ítrekað lagt fram okkar mál án þess að sjá það hljóta brautargengi eða yfir höfuð umfjöllun hér á þingi og þess vegna höfum við ákveðið að nota tækifærið til að leggja fram breytingartillögu sem væri gott skref í rétta átt. Breytingartillagan lýtur að því að veiðigjöldin séu reiknuð á grundvelli markaðsverðs aflans en ekki á grundvelli opinberrar verðlagningar sem endurspeglar ekki verðmæti fisksins heldur aðeins þróun verðmætisins yfir tíma. Við notum tækifærið hér þegar við erum að ræða breytingu á lögum um veiðigjald og þá sérstaklega einmitt breytingu á 5. gr. sem varðar reiknistofn veiðigjaldanna til að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið og nefnda 5. gr. Breytingartillagan varðar breyttar forsendur við útreikning veiðigjalda sem tekur betur mið af verðmætasköpun greinarinnar og byggir á verðmyndun markaðar.

Eins og kemur fram í nefndaráliti er ljóst og hefur komið skýrt fram að markmiðið með frumvarpinu um breytingar á tekjuskatti sem samþykkt var 20. apríl 2021 var að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareignum í kórónuveirufaraldrinum, eins og það var orðað. Markmiðið var ekki að lækka veiðigjöld. En niðurstaðan var engu að síður sú að veiðigjöld lækkuðu um fleiri milljarða króna. 2. minni hluti leggst ekki gegn þessu frumvarpi sem ætlað er að hliðra þessari lækkun til. Í ljósi þeirrar lítt eftirsóknarverðu stöðu sem upp kom við víxlverkunina er það ákveðið sanngirnismál að þessi kúrfa verði flött út og dregið verði úr sveiflu. Það er líka mikilvægt, og ég get ekki annað en haft skilning á því þegar litið er til skuldastöðu ríkissjóðs og vaxtahlutfalls ríkissjóðs, að það sé leitað allra leiða til að bæta stöðuna og bæta í tekjur fyrir næsta ár. Það heitir ekki aukning, frú forseti, það heitir hliðrun lækkunar, frestun lækkunar. En fyrst og fremst lít ég svo á að málið sem við ræðum hér sé til marks um alvarlegan ágalla í lögum um veiðigjald. Sú staðreynd ein að hvorki ráðuneyti sjávarútvegsmála né þingheimur hafi séð fyrir áhrif fyrrgreindrar breytingar á stofn til útreiknings veiðigjalda sýnir svo ekki verður um villst hversu ógegnsæjar og flóknar reiknireglur veiðigjalda eru í raun.

Frú forseti. Markmiðið með kvótakerfinu var þríþætt: Að koma í veg fyrir ofveiði, auka hagkvæmni sjávarútvegsins og að koma á sanngjarnri skiptingu auðlindarentunnar milli eiganda auðlindarinnar, þ.e. íslensku þjóðarinnar, og þeirra sem hafa nýtingarrétt á henni. Að mati 2. minni hluta atvinnuveganefndar, þeirrar sem hér stendur, þingflokks Viðreisnar, stórs hluta þingheims og stærsta hluta íslensku þjóðarinnar, hefur síðasta markmiðinu ekki verið náð. En áfram höldum við að bítast um smáskammtalækningar hér. Útreikningur veiðigjalda eins og hann er nú byggir á opinberri verðlagningu sem er langt frá því að endurspegla markaðsverð nytjastofna, þær tekjur sem koma inn fyrir fiskinn. Hér leggur 2. minni hluti því til þá breytingu að veiðigjöld séu reiknuð á grundvelli markaðsverðs, þess verðs sem fiskurinn raunverulega er seldur á.

Ég gæti lesið hér upp orð fyrir orð þessa litlu einföldu breytingartillögu og ég er að spá í að gera það, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 5. gr. laganna:

a. Á undan 1. málsl. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Aflaverðmæti botnfisks reiknast sem margfeldi meðalverðs á fiskmörkuðum og aflamagns hvers nytjastofns á yfirstandandi ári. Aflaverðmæti uppsjávarfisks reiknast sem margfeldi meðalverðs fyrir hvern nytjastofn til vinnslu í Noregi og aflamagns á yfirstandandi ári.“

Hér lítum við til Noregs þar sem ekki eru fiskmarkaðir hér sem myndu gegna hlutverki sínu fyrir uppsjávarfiskinn. Verðbreytingar á grundvelli þessarar breytingartillögu kæmu til hækkunar á reiknistofni veiðigjalds eins og staðan er í dag. Með því að samþykkja breytinguna geta t.d. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs uppfyllt orðræðu sína síðustu daga um hækkun veiðigjalds og það er auðvitað ekki vanþörf á því til að mæta þeirri lækkun sem ríkisstjórnin hefur nú þegar tryggt með frumvarpinu sem varð að lögum í fyrra. Vitanlega getur þessi breyting sem hér er lögð til líka orðið til lækkunar ef sú er staðan með markaðsverð, en gögn sýna svo ekki verður um villst að í dag er markaðsverð hærra en tölurnar sem reiknistofn veiðigjalds byggir á.

Fyrst og fremst er hér um mikið sanngirnismál að ræða, mál sem myndi tryggja gegnsæi, mál sem myndi lágmarka pólitísk afskipti af því hvernig verðmæti er úthlutað til íslenskrar þjóðar, til íslensks almennings, fyrir afnot af þjóðarauðlind. 2. minni hluti leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum.