153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:10]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Það frumvarp sem við fjöllum um í dag snýr að breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, og tekur á skattlagningu á einni af grunnatvinnugreinum okkar Íslendinga, sjávarútvegi. Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu á því með hvaða hætti skattleggja eigi greinina og hvort það kerfi sem við lýði er í dag sé gott eða slæmt. Það er mikilvægt að hafa það í huga að íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð er kemur að tækni og nýtingu auðlindarinnar á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt, kerfi sem er horft til sem fyrirmyndarkerfis er kemur að veiðistjórn og sjálfbærum veiðum. Auðlindagjaldið er tekið af nýtingu eins og áður sagði og hafa verið gerðar margar tilraunir til að ná betri sátt um þann hluta sem og kerfið í heild sinni á undanförnum árum og er ein slík tilraun í gangi nú með verkefninu Auðlindin okkar, sem matvælaráðherra setti á fót í lok maí 2022, verkefni sem á að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnarkerfisins. Starfshóparnir kallast eftir verkefnum sínum; samfélag, aðgengi, umgengni og tækifæri. Um er að ræða nýja nálgun gagnvart þeim fjölmörgu áskorunum og tækifærum sem eru í sjávarútvegi og snerta íslenskt samfélag með beinum eða óbeinum hætti alla daga allt árið um kring. Þar inni er m.a. endurskoðun á auðlindagjaldi og bind ég miklar vonir og væntingar til þeirrar vinnu.

Síðasta breyting á veiðigjaldi kom árið 2018 með lögum nr. 145/2018. Um var að ræða heildarlög um veiðigjald sem tóku gildi 29. desember það ár og komu í stað fyrri laga um sama efni, nr. 74/2012. Samkvæmt þeim lögum er veiðigjald ákvarðað sem 33% af reiknistofni sem ákveðinn er fyrir hvern nytjastofn þannig að frá aflaverðmæti er dreginn hluti stofnsins í breytilegum úthaldskostnaði og áætluðum föstum kostnaði. Reiknistofn veiðigjaldsins árið 2023 byggir á afkomu ársins 2021. Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar og áætluð vaxtagjöld sem nema skuli sömu fjárhæð og fyrningarnar.

Veiðigjald er lagt á samkvæmt lögum um veiðigjald í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar. Framkvæmd álagningar veiðigjalds er með þeim hætti að ríkisskattstjóra er falið það hlutverk að gera tillögu til matvælaráðherra fyrir 1. desember ár hvert um fjárhæð veiðigjalds hvers nytjastofns, sbr. 4. gr. laga, fyrir viðkomandi veiðigjaldsár. Niðurstaðan er svo notuð við álagningu veiðigjalds á næsta ári þar á eftir.

Eins og hér hefur komið fram dragast frá veiðigjaldi skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar samkvæmt lögum nr. 145/2018. Um fyrningar segir í 37. gr. laga nr. 90/2003 að almenn fyrningarhlutföll skipa og skipsbúnaðar séu samkvæmt 1. tölulið að lágmarki 10% og hámarkið 20% á ári hverju. Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að halda heimilum og fyrirtækjum í landinu gangandi var ákveðið að setja inn bráðabirgðaheimild LXIX og LXX í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem ætlað var að hvetja til tímabundinna fjárfestinga í umhverfisvænum ökutækjum annars vegar og lausafé í kjölfar Covid-19 hins vegar. Bráðabirgðaákvæðin hækka fyrningarhlutfallið í fyrra tilfellinu um 100% og 50% í því síðara. Um er að ræða lög nr. 33/2021, um breytingu á lögum um tekjuskatt, sem bættu nýju ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Ákvæðið sem um ræðir er umrætt bráðabirgðaákvæði LXX. Framangreind lagabreyting var hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum af heimsfaraldri kórónuveirunnar og henni var ætlað að hvetja til fjárfestinga einkaaðila í atvinnurekstrareignum með sérstakri áherslu á eignir sem teldust umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni í umhverfismálum. Aðalmarkmiðið var því að skapa hvata til fjárfestinga í tilteknum tegundum eigna með því að veita sérstakar og auknar heimildir til fyrninga þessara sömu eigna. Löggjöfin beindi sérstaklega sjónum sínum að þeim tegundum eigna sem undir ákvæðið féllu og voru umhverfisvænni eða taldar stuðla að sjálfbærari þróun og var veitt heimild til að reikna sérstakt fyrningarálag á slíkar eignir og hækka þannig fyrningarálag þeirra. Til þess að eign teljist umhverfisvæn og/eða stuðla að sjálfbærri þróun í skilningi ákvæðisins þarf hún að uppfylla ákveðin skilyrði sem nánar eru tíunduð í bráðabirgðaákvæði LXX í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, auk þess sem sett hefur verið reglugerð nr. 565/2022, um skattalegt fyrningarálag á grænar eignir og aðrar eignir sem sambærilegar geta talist. Að framangreindum skilyrðum uppfylltum er því heimilt að beita bráðabirgðaákvæði LXX og fyrna viðkomandi eignir um allt að 50% af fyrningargrunni allt að niðurlagsverði eignar. Skip og skipsbúnaður eru talin upp í 1. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og eru því meðal þeirra eigna sem falla undir bráðabirgðaákvæðið og heimilt er að flýtifyrna.

Þar er komin skýring á því frumvarpi sem hér er til meðferðar, virðulegur forseti. Þarna er um víxlverkun að ræða en breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafa áhrif á reiknistofn laga nr. 145/2018, um veiðigjald, þar sem skattalegar fyrningar hafa áhrif á útreikning veiðigjalds. Ef miklar fyrningar eru hjá tilteknum útgerðaraðila, t.d. vegna söluhagnaðar samkvæmt 14. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða ákvæði til bráðabirgða LXX í sömu lögum, hækkar það fastan kostnað sem dreginn er frá aflaverðmæti og hefur áhrif á reiknistofn viðkomandi nytjastofns. Meðal annars er viðkomandi fyrirtæki stundum eini aðilinn eða eitt af fáum sem veiðir nytjastofninn. Reiknistofn nytjastofns getur þannig hækkað eða lækkað mikið á tilteknu fiskveiðiári ef þeir sem veiða hann eru með miklar fyrningar eða óvenjulega háan rekstrarkostnað tiltekið ár. Þetta gerir rekstrarumhverfi þeirra sem veiða þessa stofna mjög óstöðugt en það gengur líka gegn markmiðum laga nr. 145/2018, um veiðigjald.

Virðulegur forseti. Með því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram er verið að taka á þeim sveiflum sem myndast geta í reiknigrunni veiðigjalds vegna víxlverkunar bráðabirgðaákvæðis LXX í lögum nr. 90/2003 og lögum nr. 145/2018. Lagt er til að þak verði sett á fyrningar þannig að þær dreifist með jafnari hætti á fleiri ár og hafi ekki eða síður áhrif á reiknistofn veiðigjalds fyrir einstök fiskveiðiár. Þetta leiðir til stöðugra rekstrarumhverfi, meiri fyrirsjáanleika fyrir rekstraraðila og þeir geta skipulagt rekstur sinn betur fram í tímann auk þess sem breytingin samræmist markmiðum og tilgangi laga um veiðigjald. Ekki er um að ræða breytingar á veiðigjaldi til hækkunar eða lækkunar. Einungis er verið að færa til á milli ára.

Lögð er til breyting á 5. gr. laga nr. 145/2018 á þann veg að í stað 4. málsliðar 2. mgr. 5. gr. laga komi þrír nýir málsliðir. Þar er kveðið á um að fyrningar umfram 20% dragist frá veiðigjaldsstofni í fimm ár í fimm jafn háum fjárhæðum til næstu fimm ára sem á eftir koma. Slík dreifing fyrninga mun aðeins eiga sér stað þar sem aukafyrningar nema a.m.k. 200 millj. kr. Með þeirri breytingu á reikningi veiðigjalds sem hér er lögð til er áætlað að veiðigjald fyrir árið 2023 muni vera um 2,5 milljörðum hærra en ef frumvarpið næði ekki í gegn. Þar af nemur sameiginlegt veiðigjald uppsjávartegundanna loðnu, síldar, makríls og kolmunna 2,3 milljörðum kr. í stað 0,7 milljarða að óbreyttu. Veiðigjald næsta árs verður því hærra en ráð var gert fyrir en lægra þar á eftir, komi ekki til frekari breytingar á lögum um veiðigjald. Um er að ræða góða breytingu sem ég mun styðja og kemur til, eins og ég hef vonandi skýrt hér, vegna þeirra mistaka eða vegna þess að menn sáu ekki fyrir þessa víxlverkun milli tekjuskattslaganna og veiðigjalds og ég held að það sé mikilvægt að við breytum þessu.

Virðulegur forseti. Ég vil að endingu nefna að það er mikilvægt að frumvarp sem þetta fái sem besta umfjöllun og rýni hér á Alþingi. Því er mikilvægt að nefndir og þing fái þann tíma sem nauðsynlegur er. Sá tímarammi sem atvinnuveganefnd var gefinn í þessu verkefni er ekki til eftirbreytni. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka nefndarmönnum og áheyrnarfulltrúum í atvinnuveganefnd fyrir að sýna málinu skilning og funda utan hefðbundins fundartíma nefndarinnar svo hægt væri að koma þessu mikilvæga máli í gegn á tilsettum tíma.