153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Tvær spurningar. Annars vegar, ef við horfum á málið í heildarsamhengi og í eins víðu samhengi og hægt er að hafa þá er hægt að segja sem svo að lögin sem hv. þingmaður vísaði í vegna fyrninganna hafi í raun og veru lækkað veiðigjöld, áætluð veiðigjöld fyrir þann tíma, en þetta frumvarp sem við erum að glíma við hérna dreifir lækkuninni á fleiri ár. Til að hafa það á hreinu þá myndi ég vilja fá staðfestingu á því að það sé það sem við erum að glíma við hérna. Hins vegar er lagagreinin eins og hún er varanleg, hún kemur til með að gilda þangað til eitthvað annað er ákveðið og því munu útgerðir alltaf geta nýtt þennan fyrningargrunn til að ryðja fyrningu vegna veiðigjalda á seinni ár, sýnist mér, allt sem er umfram þessi 20% og 200 milljónir. Það er varanleg breyting, ef ég skil þetta rétt. Eins og kemur fram hérna, með leyfi forseta: „Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skal ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár.“ Þetta er ekki einangrað tilvik bara út af þessari breytingu sem var gerð vegna Covid, þetta er varanleg breyting almennt og mun gilda eftir tíu ár, 20 ár ef engu öðru verður breytt. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið gerð einhver greining á því hvaða áhrif það hefur almennt og hvernig þetta hefur verið undanfarin tíu ár, hversu algengar eru t.d. fyrningar á þessum stærðum?