153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég er ekki í atvinnuveganefnd sem fjallaði um þetta frumvarp. Ég er að koma að því með því að lesa nefndarálitin og hlusta á ræðurnar. Ég klóra mér aðeins í hausnum þegar ég skoða þetta frumvarp því að það eru nokkur varúðarmerki sem þarf að athuga. Þegar málsmeðferðin er svo stutt og þegar verið er að flýta málum í gegnum þingið þá þarf að kveikja á smá radar og efast um ýmislegt sem er sagt sjálfgefið. Svo þegar samtök eins og SFS gefa þumalmerki upp á við, að þau sætti sig nú við þetta þótt þau kvarti og kveini, þá veit maður aldrei því að það er lokaorðið sem skiptir máli en ekki hvernig fólk lætur áður en það segir að lokum já eða nei. Það er það sem skiptir máli.

Í þessu máli horfi ég á tvennt. Annars vegar það sem var augljóst fyrir umræðuna og varð augljóst strax og málið var kynnt fyrir þingflokkum, að í þessu frumvarpi var gert heimilt að fyrna um 50% á ári vegna fjárfestinga á árunum 2021 og 2022. Það hafði líka áhrif á lög um veiðigjöld. Það var ekki gert ráð fyrir því. Það var óvart. Það þýddi að veiðigjöld lækkuðu vegna þessara fyrninga. Því erum við að glíma við að tekin var ákvörðun sem lækkaði veiðigjöld. Núna er verið að taka á því máli þannig að verið er að dreifa þessari lækkun yfir mörg ár. Það er grundvöllurinn að þessu, í staðinn fyrir skarpa lækkun um 2,5 milljarða á veiðigjöldum á næsta ári þá mokum við í rauninni veiðigjöldum frá fimm árum þar á eftir yfir á næsta ár og sjáum lækkunina dreifast yfir fimm ára tímabil. Það er grundvöllurinn að því sem verið er að reyna að gera með þessu frumvarpi og við skulum hafa í huga.

Hitt sem vakti athygli mína þegar hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson hélt ræðu áðan og ég var að velta fyrir mér hvort þetta væri tímabundin ráðstöfun eða ekki, er að mér sýnist svo vera ef ég les þetta frumvarp eins og það er hérna. Það er ekkert rosalega langt, með leyfi forseta:

„Í stað 4. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir:“ — Þetta er alltaf versti hlutinn af öllum lögum, að reyna að setja breytinguna inn í lögin eins og þau eru og reyna að ná samhenginu. — „Til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar.“

Þetta er bara eins og hefur gengið og gerst á undanförnum árum, alveg eðlilega. Það er hægt að telja til fyrninga og afskrifa tæki, skipsbúnað og þess háttar; þetta eldist. Hins vegar eru aukalega viðbótarafskriftir miðað við önnur lög sem gilda þarna. Svo ég haldi áfram:

„Séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skal ríkisskattstjóri dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár.“

Gefum okkur að þetta 50% hlutfall hafi verið tímabundið og er komið aftur í 20% eins og það var alltaf eftir því sem ég best man, ég hef ekki náð að kíkja betur á þetta. Ég held að þessar 200 milljónir séu ný viðbót. Athyglisverði hlutinn er þarna að ríkisskattstjóri skuli dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár. Ég man ekki eftir því að þetta hafi verið svoleiðis áður. Þetta eru núna varanleg lög og munu alltaf gilda, á næsta ári, þar næsta o.s.frv. Engar tíma- og áratakmarkanir eru í lagagreininni út af þessu atriði. Þó að það standi í greinargerðinni að heimilt sé að fyrna m.a. skip og skipsbúnað um 50% á ári vegna fjárfestinga á árunum 2021 og 2022, þá er það lögskýringartexti í greinargerð sem vísar ekki í nein lög sem passa þar við. Þessi 50% fyrning var leyfð árin 2021 og 2022. Það er alveg rétt. Árið 2023 er ekki heimild til að fyrna um 50%. En það er þessi dreifing yfir næstu fimm ár. Segjum að árið 2025 fari einhver í fyrningu umfram þessi 20% að viðbættum 200 milljónum, þá má taka viðbótarfyrninguna og dreifa á næstu fimm ár. Hv. þingmaður hristir hausinn. Ég skil ekki hvernig lagaákvæðið á að takmarka þetta á nokkurn hátt eftir fimm eða tíu ár. Af þessu ákvæði að dæma eru engar tímatakmarkanir í lögunum sjálfum. Þegar við samþykkjum lögin og þau eru birt er greinargerðinni skóflað út og það er farið eftir lögunum. Ef einhver vafi leikur á því hvernig eigi að beita lögunum þá er stundum leitað í lögskýringargögn en það er enginn vafi á því sem segir hérna, bara á árunum 2021 og 2022 skal dreifa viðbótarfyrningum á næstu fimm ár. Þetta er bara almenn heimild.

Ég hef ekki hugmynd um hvaða áhrif það hefur í heildarsamhenginu. Er hægt að ryðja þessum fyrningum á undan sér, fimm og fimm ár í senn? Hvernig verður það í svona klassísku íslensku umhverfi þar sem kennitöluflakk og svoleiðis er mjög almennt, skipt er um félög o.s.frv., að verið er að ryðja fyrningum áfram og svo falla þær niður af því að fyrirtæki eru ekki lengur starfandi og þess háttar? Ég biðst velvirðingar en ég sé ekki hvernig er hægt að hrista hausinn yfir þessu, þetta eigi bara við á árunum 2021 og 2022. Það er ekkert í lagatextanum sem gefur annað til kynna og núna á þetta frumvarp að fjúka í gegn í dag. Það á að klára atkvæðagreiðslu, strax var kallað til 3. umr. og það á að samþykkja lögin í dag. Ef svo væri ekki þá myndi ég tvímælalaust vilja senda þetta mál inn í nefndina á milli umræðna til að svara þessari spurningu. Mér fyndist mjög augljóst að gera það. Kannski að hv. framsögumaður nefndarálits meiri hluta komi upp og útskýri aðeins fyrir okkur að þetta hafi verið skoðað sérstaklega og þetta virki alls ekki svona. Ég held að það væri mjög heppilegt á þessum stutta tíma sem þingið hefur til aflögu því að þetta er efnisleg breyting eftir því sem ég kemst næst. Þegar eitthvað svona gerist, að verið er að flýta málum í gegn, þá er það rautt flagg sem þarf að passa. Við erum búin að upplifa það þó nokkuð oft á undanförnum árum að þegar verið er að troða málum hratt í gegnum þingið þá verða mistök, miklu frekar þá heldur en í öðrum málum. Það er alveg rétt að mistök gerast, mannleg mistök o.s.frv., en þegar verið er að flýta málum þá hafa mistökin verið stór. Ég get ekki áttað mig á heildarsamhengi þessa alls ef skilningurinn á lagagreininni er eins og ég hef verið að lesa hérna upp. Þetta er ekki takmörkuð heimild. Þetta er varanleg heimild til að dreifa viðbótarfyrningum sem eru samtals hærri en 20% að viðbættum 200 milljónum varanlega yfir næstu fimm ár, ekki bara núna. Ég verð að vekja athygli á því og vonast til að eitthvað verði gert. Ég veit ekki hvað á að gera í þessu en það væri mjög vel þegið ef framsögumaður nefndarinnar myndi fjalla stuttlega um þetta ef það er hægt.