153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:14]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Ég legg þá kannski enn ríkari áherslu á að vandað sé til verka. Aðstæður voru skiljanlegar í Covid þegar ekki var hægt að halda fundi, haldnir voru fjarfundir og erfitt að hafa samráð. Maður getur kannski skilið að samráð hafi ekki verið eins og gott hefði verið á þeim tímapunkti, en hvað þá að við séum ekki að vanda okkur núna og það sé verið að koma með þetta núna á nokkrum dögum. Við erum að tala um milljarða og við þurfum alltaf að vanda okkur þegar við erum að tala um eignir eða fjármuni almennings sem eiga síðan að fara í þjónustu við þessa sömu aðila. Við erum hér sýknt og heilagt að tala um aukna þjónustu við börn vegna sálfræðiþjónustu og talmeinaþjónustu. Við sjáum biðlista úti um allt en samt er verið að ausa fjármunum upp á milljarða út úr ríkissjóði. Ég og hv. þingmaður erum greinilega sammála um fyrirkomulag innheimtu auðlindagjalds með tímabindingu og síðan útboði í framhaldinu. Þar er verið að tala hugsanlega um 5% fyrningu en maður spyr sig: Er fyrning á skipum ekki bara allt of mikil? Af hverju er 20% fyrning og hvernig dettur mönnum í hug að hafa hana 50%? Það er eins og verið sé að fyrna GSM-síma í stað skips sem menn eru að nota í áratugi.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Er ekki verið að heimila allt of miklar afskriftir í útgerðinni?