153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst að við þurfum að skoða þetta vel því að svona miklar afskriftir eru náttúrlega ívilnandi. Það er löngu búið að afskrifa skipið, það er enn í fullum rekstri og líftíminn er miklu lengri heldur en afskriftartíminn. Því er sjálfsagt að skoða þetta.

Hins vegar dregur þetta frumvarp sem við ræðum hér svo skýrt fram gallana í reiknireglunni sem er undir veiðigjaldaútreikningnum. Að það skuli vera hægt að draga frá fyrningar og svo eiga vextirnir líka að vera sama upphæð — frádrátturinn — og þetta geti valdið milljarða sveiflu á veiðigjöldunum er náttúrlega alveg galið. Það er ekki skrýtið að við sem vorum á síðasta þingi í efnahags- og viðskiptanefnd hefðum ekki farið að hugsa um veiðigjöld í þessu sambandi af því að tengingin er ekki augljós. Eins og ég segi þá er sturlað að þessi reikniregla hafi verið samþykkt á sínum tíma. Hafi menn ekki áttað sig á gallanum þá er hann dreginn svo skýrt og skilmerkilega fram í þessu ástandi sem við erum í núna. Það er augljóst að það þarf að laga þessa reiknireglu. Annað sem gerði okkur kannski erfitt fyrir á síðasta þingi var ekki bara Covid heldur vorum við í efnahags- og viðskiptanefnd að ræða um breytingar á tekjuskattslögum, en veiðigjöldin eru í atvinnuveganefnd og fólkið sem þar sat hefði hugsanlega kveikt á þessu í meðferð málsins af því að það var nýbúið að fara í gegnum veiðigjaldabreytingarnar. En svona er þetta og við þurfum að hafa hraðar hendur, herra forseti, vegna þess að veiðigjöldin eru síðan ákveðin 1. desember. Það er tímapressan.