153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við samþykkt þessa frumvarps er ekki verið að breyta umdeildri reiknireglu um veiðigjald. Aðeins er verið að jafna greiðslurnar þannig að sérstök hækkun bókhaldslegra fyrninga sem lækkar tekjuskattsstofn viðkomandi útgerðar hafi minni áhrif á veiðigjald á næstu árum. Summan yfir tímabilið skilar svipuðum veiðigjöldum. Að láta sem frumvarpið sé um hækkun veiðigjalds er blekking. Frumvarpið dregur hins vegar fram gallana við ákvörðun veiðigjaldsins; að sérstök ívilnandi Covid-aðgerð sem beinist að öllum fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri skuli valda sveiflum veiðigjalds milli ára á sama tíma og útgerðir skila methagnaði. Við í Samfylkingunni greiðum frumvarpinu ekki atkvæði okkar enda viljum við fara aðra gegnsærri og réttlátari leið við ákvörðun veiðigjalda. Við teljum einnig rétt að stjórnarmeirihlutinn beri ábyrgð á samþykkt þessa frumvarps sem felur í sér afturvirkni sem hingað til hefur verið talin óæskileg og ólögleg.