153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við erum að ræða hér frestun á lækkun veiðigjalds, dreifingu á neikvæðum áhrifum þess að aðferðafræðin við útreikning veiðigjalds er flókin og ógegnsæ. Við í Viðreisn erum ekkert á móti málinu sérstaklega, ég kem betur inn á það á eftir, en við erum hins vegar á móti veiðigjaldi í núverandi mynd m.a. vegna þessa flækjustigs, ógegnsæis og pólitískra afskipta. Við viljum þess vegna nýta tækifærið og leggja fram tillögu þess eðlis að veiðigjald sé reiknað á grundvelli markaðsverðs aflans en ekki opinberrar verðlagningar sem endurspeglar alls ekki verðmæti fisksins. Það er rétt spor í rétta átt og bætir vont kerfi en ég sé hér að líklega næ ég ekki í gegn, því miður. Menn verða þá bara að eiga það við sig. En ég held að við getum öll verið sammála um að þetta vandræðamál kjarnar þennan ófögnuð sem veiðigjaldsútreikningurinn er yfir höfuð. Ógegnsæið er slíkt, að frá því að málið kom upp hefur helsta umræðan falist í því að takast á um hvort þetta sé hækkun eða lækkun og að flokkur matvælaráðherra hafi lagt þetta þannig upp að hér sé verið að hækka veiðigjöld þegar staðreyndin er sú að þessi víxlverkun leiddi af sér lækkun og hér er verið að fresta þeirri lækkun. Gæti ógegnsæið og jarðvegurinn fyrir óhappadrjúg pólitísk afskipti verið frjórri?