153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[17:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Með tillögum Viðreisnar er verið að gjörbylta í grundvallaratriðum hvernig lög um veiðigjald virka. Það er verið að hverfa frá afkomutengingu í prinsippinu með því að miða við verð á uppsjávarfiski í öðru landi. Við verðum að muna að ekki er fiskmarkaðsverð á öllum tegundum sem veiðigjald er innheimt á. Við þurfum líka að vita hvernig við ætlum að meðhöndla sjófrystar afurðir o.s.frv. Mér finnst það lýsa ákveðinni vanþekkingu á sjávarútvegi að gera ráð fyrir því að makríll veiddur af Íslendingum sé sama vara og makríll veiddur af Norðmönnum eða á öðrum veiðislóðum, eða loðna. Ef þessi tillaga væri samþykkt yrði niðurstaðan sennilega sú að þá myndum við t.d. ekki geta fengið veiðigjöldin frá Skattinum 1. desember. Íslenskar útgerðir keppast við að veiða loðnu þegar hún skilar mestum verðmætum, þegar hún er til manneldis og hrognfyllt. Það eru takmarkanir í tíma og rúmi á því hvar Norðmenn mega veiða og því má ætla að verðmætið sé einfaldlega lægra. Þannig er mjög undarlegt að ætla sér að miða við gjaldahliðina við breytilegan kostnað við veiðar á loðnu á Íslandsmiðum, en tekjuhliðina við uppreiknaða stærð á annarri loðnu frá Noregi.