153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[21:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fyrir um ári síðan samþykktum við fjárlög fyrir yfirstandandi ár og við vorum vissulega bjartsýn, við vorum vongóð en við getum sagt í dag að það varð miklu meiri og kröftugri viðspyrna en við áttum von á. Það endurspegla fjáraukalögin fyrst og fremst. Á hinn bóginn endurspegla þessi fjáraukalög afleiðingar af heimsfaraldri og ófriði í Evrópu og hvernig við erum að takast á við það. Það má alltaf gera betur og við getum aldrei orðið endanlega sammála en ég fagna ræðum hér í kvöld um það sem við erum sammála um að gera. Önnur verkefni bíða okkar sem við munum ræða hér í 2. umr. fjárlaga eins og þau hvernig koma á til móts við sveitarfélög vegna málefna fatlaðra. Því samtali er ekki lokið, það hefur ekki verið settur neinn endapunktur á það samtal. En fyrst og fremst við samþykkt fjáraukalaga hér í kvöld sjáum við að efnahagsstjórnin var styrk og hún verður áfram styrk.