153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hækkun gjalda.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að rifja það upp hér að á miðju ári var gripið til sérstakra aðgerða til að verja tekjulægri hópa gegn áhrifum verðbólgu. Ég á ekki að þurfa að rifja það upp en ég ætla samt að gera það vegna þess að þá var gripið til þess að efla stuðning við örorkulífeyrisþega, hækka húsnæðisstuðning, sem hafði ekki hækkað frá árinu 2017, og frekari aðgerða til að koma til móts við tekjulægstu hópana.

Þegar hv. þingmaður ræðir hér um hækkun krónutölugjalda skulum við rifja það upp að hér er m.a. um áfengis- og tóbaksgjald að ræða sem ég get ekki talið vera nauðsynjavöru þó að ég viti að einhverjir hv. þingmenn hér í salnum séu kannski ósammála mér um það. Það er ekki nema eðlilegt að þessi gjöld fylgi verðlagi að einhverju leyti. Við höfum einmitt verið mjög hófstillt í hækkunum þessara gjalda á undanförnum árum til þess að hafa minni áhrif á verðbólgu. En þegar staðan er eins og hún er nú verður að grípa til þessara aðgerða.

Ég vil líka minna á að það sem við höfum séð á þessu ári í þeirri stöðu sem nú er uppi — og ég held að hv. þingmaður hljóti að vera mér sammála um að staða efnahagsmála er flókin þegar við sjáum þau áhrif sem bæði heimsfaraldur og stríð hefur haft á aðfangakeðjuna — er mikilvægi þess að við höfum fjölgað þeim stjórntækjum sem við höfum til að takast á við stöðuna. Þá er ég að vísa til þeirra lagabreytinga sem ríkisstjórnin lagði til hér við Alþingi og voru samþykktar, en þær gáfu Seðlabanka Íslands aukin hagstjórnartæki til að tryggja fjármálastöðugleika. Gripið var til aðgerða til að koma á auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði sem ég tel að sýni sig nú að hefur áhrif. Þar með er ég ekki að segja að þessari vegferð sé lokið. Við þurfum að ljúka þeirri skoðun sem er hafin og útreikningi á húsnæðislið vísitölu, hvort hægt er að skoða breytingar á þeim útreikningum eins og reifað hefur verið í fyrri skýrslum þannig að húsnæðisliðurinn vegi síður þungt í vísitölunni.