Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[16:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt í þessu máli og mig langar að horfa hér á eitt atriði sérstaklega, ramma fyrir sjálfbærar fjárfestingar sem hefur fengið það grípandi nafn taxonomi á ensku, með leyfi forseta. Fyrst þegar þessi hugmynd kom fram þóttust græningjar hafa himin höndum tekið vegna þess að þarna væri loksins kominn einhver skýr hvati fyrir fjármálaöflin til að beina kröftum sínum í átt að sjálfbærri þróun; það væri í grófum dráttum hægt að flokka fjárfestingar í gráar og grænar. Svo gerðist það fyrir ári, þegar ráðherraráðið lagði fram endanlega tillögu sína, að það höfðu laumast með ókræsilegir laumufarþegar í taxonomiuna. Það var allt í einu opnað á það að fjárfestingar í kjarnorkuverum og orkuverum sem ganga fyrir jarðgasi gætu fallið undir þessa reglugerð. Jarðgasið var réttlætt með því að það væri skárra en kol og því yfirgangsfjárfesting yfir í grænni framtíð þegar staðreyndin er sú að fjárfestingar í beinum grænum orkuverkefnum, hvort sem það eru sólarsellur eða vindorka, eru nú þegar miklu hagkvæmari en gasið og auk þess sem það hefur sýnt sig í millitíðinni að með því að byggja fleiri gasorkuver erum við að byggja undir menn eins og Pútín. Það var barist gegn þessu á vettvangi Evrópuþingsins og einir 278 þingmenn greiddu atkvæði gegn taxonomiunni þegar upp var staðið, gegn þessari aðeins of frjálslegu túlkun á því hvað telst vera sjálfbær fjárfesting. Það hefur verið boðað af ríkisstjórnum Austurríkis og Lúxemborgar hið minnsta (Forseti hringir.) að leitað verði álits Evrópudómstólsins á því hvort þetta standist yfir höfuð. Mig langar að (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann hvort farið hafi verið (Forseti hringir.) út í þessi álitamál. Þarna er búið að útvatna svo mikið þessi góðu plön.