Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki ætla ég að þykjast vera fróðari en hv. þingmaður nákvæmlega í þessum efnum en mér telst svo til að þegar þessar reglugerðir koma fram, framsendu reglugerðirnar, þá þurfum við að taka þær eins og þær eru. Kemur það hins vegar í veg fyrir að Ísland geti sett sér metnaðarfull markmið? Það gerir það ekki svo lengi sem markmiðin eru innan ramma EES-samningsins og á því sviði sem hann nær til. Nær hann til loftslagsmála? Ekki nema í gegnum svona leiðir. Þetta er m.a. hluti af því sem Kjell Magne Bundevik hefur bent á í Noregi, maður sem hefur verið á móti Evrópusambandinu. Hann segir: Við verðum að taka umræðuna lengra og meira út frá lýðræði, frelsi og mannréttindum en líka út frá því hvernig við ætlum að tækla loftslagsmálin og Evrópusambandið er á undan okkur — hann á þá við Norðmenn en það er líka á undan okkur Íslendingum — þegar kemur að markmiðum í loftslagsmálum. Mér hefur alltaf þótt ágætt að benda á loftslagsmálin sem eitt af þessum dæmum þar sem við erum svolítið með þetta í okkar höndum, hvað við ætlum að gera. Við nýtum ekki tækifærin þar sem við erum fyrir utan EES-samninginn. Það er kannski hægt að nefna önnur mál. Af því að við vorum að ræða hér áðan, ég og hæstv. matvælaráðherra, um landbúnaðinn þá er það svið sem er undanþegið Evrópusambandinu. En við getum gert miklu meira, bæði á sviði umhverfis og náttúruverndar, í loftslagsmálum innan landbúnaðar. En við getum líka farið okkar leið í landbúnaði og til að mynda aukið samkeppni og neytendavernd og vernd fyrir bændur meira en gert er á þeim grunni sem við byggjum á. Við erum ekki að nýta þetta frelsi sem andstæðingar Evrópusambandsins eru alltaf að segja að við höfum til þess einmitt að verða feti framar en Evrópusambandið, við erum frekar skrefinu á eftir.