Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður vera að lýsa ákveðnu sinnuleysi. Ég ætla ekki að efast um að metnaðurinn til að gera betur í loftslagsmálum er til staðar. Þó að sumir telji þessa flokka vera ólíka þá finnst mér hún römm sú íhaldstaug sem umlykur þá alla. Málamiðlanirnar eru svo miklar að það er ekkert gert. Þess vegna hef ég sagt: Það er svo mikil kyrrstaða í málaflokkum sem við megum ekki vera í kyrrstöðu með og þá ekki síst í loftslagsmálum. Það er þyngra en tárum tekur að upplifa það að jafn öflugt og gott fólk og er í ríkisstjórninni hafi ekki tekið stærri skref og við erum að fagna fimm ára afmæli. Á þessum fimm árum hefur losun einmitt aukist, eins og hv. þingmaður benti á, hún jókst um 3% í fyrra. Það eru afrekin í þessu. Síðan kemur að því hvort við eigum að virkja allt í botn. Það er heldur enginn að segja það. En við verðum að horfast í augu við raunveruleikann, við þurfum að fá meiri orku og við getum fengið hana með margvíslegum hætti, með því að nýta það sem fyrir er og fara í alls konar nýjar tæknilausnir en við þurfum líka að virkja. Þá þarf það að vera alveg á hreinu að ef við ætlum að virkja og fara í meiri orkuöflun verður sú orka og sú nýting að miðast við grænar lausnir, fara grænar leiðir. Þá þarf skilgreiningin að vera alveg tilbúin, þá þurfum við að sýna metnað. Það er það sem veldur mér líka ákveðnum áhyggjum, að upplifa það að engir slíkir tónar hafa t.d. verið slegnir af hálfu loftslags- og umhverfisráðherra hvað það varðar. Um leið og við segjum já, við erum tilbúin til að skoða allar þær leiðir til að auka raforkuframleiðsluna þá verður líka að vera alveg skýrt að sú raforka fari í græna atvinnustarfsemi, í grænar lausnir.