Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:19]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur fyrir góða framsögu. Ég er búin að skoða þetta frumvarp, ég er náttúrlega ekki í efnahags- og viðskiptanefnd, en ég ætla að fá að taka undir þau sjónarmið sem hefur verið komið á framfæri í umsögnum við þetta mál, m.a. athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins. Ég er sammála umsagnaraðilum um að þetta gæti verið útilokandi af því að rafrænir fundir eiga sér ekki eingöngu stað innan skráðra félaga. Rafrænir fundir eru ekki bundnir við skráð félög heldur náttúrlega líka annars konar félög. Í nefndarálitinu segir að vegna þess sem kom fram í minnisblaði frá ráðuneytinu þá hafi athugasemdirnar í umsögnum ekki verið teknar til greina. Ég spyr bara hv. þingmann og framsögumann málsins: Eru þingmenn ekki löggjafinn? Það er ekki ráðuneytið. Minnisblað frá ráðuneytinu, trompar það vilja löggjafans og að lög séu samræmanleg og að þau séu skilvirk? Er það ekki hlutverk löggjafans að meta hvort taka skuli ákveðna hluti til greina eða ekki? Þessi breyting er gerð til að koma til móts við félög sem halda fundi sína rafrænt, annaðhvort eingöngu eða að hluta til, en þetta er bara svolítið takmarkandi og þröngt. Ég spyr hv. þingmann: Er ekki gert ráð fyrir þeim félögum sem eru ekki skráð sem halda rafræna fundi?