Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:23]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur fyrir svarið. Þetta var upplýsandi svar. Þó erum við hv. þingmaður svolítið ósammála um gang mála hér á Alþingi. Þarna finnst mér að löggjafinn ætti að vera að semja frumvörp. En þetta er náttúrlega stjórnskipunarvenja og þetta hefur tíðkast frekar lengi. En að efnislegum atriðum frumvarpsins og um þetta sama ákvæði í 1. gr. frumvarpsins. Í því sambandi má líka skoða 3. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, þar er komið inn á rafræna stjórnarfundi. Mun þetta ákvæði, þessi breyting á 80. gr. hlutafélagalaga, hafa áhrif á 3. mgr. 70. gr. laganna? Mun þetta líka eiga við um rafræna stjórnarfundi hlutafélaga? Til að skýra þetta aðeins betur þá ætla ég bara að lesa upp ákvæðið, með leyfi forseta:

„Unnt er að halda stjórnarfundi með aðstoð rafrænna miðla að svo miklu leyti sem það samræmist framkvæmd verkefna félagsstjórnar. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar getur stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri krafist þess að stjórnarfundur verði haldinn með hefðbundnum hætti. Að öðru leyti gilda ákvæði laganna um stjórnarfundi og notkun rafrænna skjala eftir því sem við á um rafræna stjórnarfundi og samskipti í tengslum við þá.“

Nær þessi breyting á 80. gr. til 3. mgr. 70. gr. hlutafélagalaga?