Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að skýra þetta út fyrir mér, eins og ég sagði áðan þá er ég ekki lögfræðimenntaður og hef sem betur fer aldrei þurft að slíta hlutafélagi, sem er kannski gott, alla vega ekki með þessu formi. Mig langaði í seinna andsvari að spyrja tveggja spurninga. Ég sá það ekki svona í fljótu bragði í greinargerðinni hvort einhverjar upplýsingar væru um það hversu mörg félög það eru sem ekki eru búin að skila ársreikningum og myndu þar af leiðandi lenda í því að vera slitið um leið og þetta yrði samþykkt. Það var fyrsta spurningin sem mig langaði að spyrja. Seinni spurningin er kannski smáframhald af þeirri fyrri. Segjum sem svo að hlutafélag skili ekki inn ársreikningi og ársreikningaskrá fari fram á slit. Það kemur til héraðsdómara, kannski ekki búið að úrskurða og síðan er ársreikningnum skilað inn einhvers staðar í þessu ferli. Stoppar þá slitaferlið eða hvað gerist ef menn sjá að sér og vilja nú allt í einu vera góðir í að skila upplýsingum? Eða er ferlið þannig að um leið og það byrjar þá er ekki hægt að stoppa það? Hvernig er það? Ég er bara að reyna að skilja í hvað við erum að setja hlutafélög með þessu.