Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:35]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er komið inn á nokkur atriði. Það er breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, breyting á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, og síðan er breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006. Það var vissulega rétt hjá hv. þm. Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur að ég væri sérstök áhugamanneskja um hlutafélagarétt og allt sem varðar hlutafélög enda er það mikið í umræðunni og kemur auðvitað alls konar lögfræði við. En byrjum á 1. gr. frumvarpsins sem segir svo, með leyfi forseta:

„Við 80. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Í félögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum markaði er heimilt að kveða á um það í samþykktum að hluthafi skuli tilkynna félaginu þátttöku sína á hluthafafundi innan tiltekins frests fyrir fundinn. Sá frestur skal þó eigi vera lengri en ein vika. Fundarboð skal innihalda upplýsingar um skráningardag. Atkvæðisréttur hluthafa á fundinum fer eftir fjölda hluta á því tímamarki þegar skráningarfresti lýkur.“

En hvert er valdsvið hluthafafundar? Ég held að það sé rosalega góð spurning. Hluthafafundur er þegar hluthafar koma saman, eru kveðnir saman til að ræða um málefni er varðar félög eða taka ákvörðun sem varðar félög. Það er hægt að hafa alls konar fundi. Þeir eru reyndar ekki alls konar. Eins og ég kom inn á áðan, í andsvörum mínum við hv. framsögumann, er hægt að halda rafræna fundi. Hluthafafundir eru fyrst og fremst vettvangur fyrir hluthafa til að geta beitt þeim áhrifum sem tengjast hlutafjáreign þeirra samkvæmt lögum og svo eru auðvitað líka aðalfundir og aukafundir. En til að skýra betur valdsvið hluthafafundar má nefna dóm Hæstaréttar frá 15. september 1994 í máli nr. 315/1994. Þar kvað Hæstiréttur á um eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Samkvæmt hlutafélagalögum, nr. 32/1978, fer hluthafafundur með æðsta vald í málefnum hlutafélags samkvæmt því sem lög og samþykktir þess ákveða og fara hluthafar með ákvörðunarvald sitt í málefnum félagsins á hluthafafundum, sbr. 63. gr. laganna. Fundir þessir er jafnframt eini vettvangurinn þar sem hluthafar geta beitt ákvörðunarvaldi sínu. Hluthafafundur getur tekið fyrir sérhvert málefni sem félagið varðar og gert um það ályktun og ber þá stjórn félagsins að fara eftir því.“

En það eru auðvitað, forseti, takmarkanir á þessu. Þær takmarkanir geta falist í því að líta þurfi til ákvæðis samþykkta. Svo er stundum líka um ófrávíkjanleg lagaákvæði að ræða. Svo gæti reynt á framsal valds og að mögulega verði öðrum stjórnareiningum þá falið ákvörðunarvald.

Nánar um hluthafafundi: Um fundarmenn hluthafafundar gildir fyrst og fremst það að þeir fundir sem hér um ræðir eru lokaðir og um viðveru á þeim fundum er heimild til hluthafa, umboðsmanna, ráðgjafa, fulltrúa nefndarmanna, fundarstjóra, endurskoðanda og skoðunarmanna, svo eru auðvitað stjórnarmenn og framkvæmdastjórar. Það eru alls konar réttindi sem eru til staðar á hluthafafundum en þar skiptir málfrelsi fyrst og fremst máli. Einnig réttur til upplýsinga. Hluthafar hafa líka tillögurétt og atkvæðisrétt. Meginreglan er sú að hver og einn hluthafi fær atkvæðisrétt á hluthafafundi í samræmi við hlutafjáreign sína. En á þessu eru auðvitað undantekningar eins og í mörgum góðum lögum, t.d. ef um er að ræða kyrrsetningu og fjárnám, vörslusviptingu og gjaldþrot. Svo er atkvæðavægi líka mismunandi samkvæmt samþykktum. Hluthafafundur getur verið aðalfundur en hann er haldinn samkvæmt því sem er ákveðið í samþykktum félagsins og má ekki vera haldinn sjaldnar en einu sinni á ári og heldur ekki síðar en innan átta mánaða frá lokum hvers reikningsárs. Við erum líka með aukafundi. Aukafund skal halda ef fulltrúanefndin eða félagsstjórnin telur þess þörf og svo er aukafundur líka haldinn ef hluthafi krefst þess en sá hluthafi þarf að ráða yfir a.m.k. 10% hlutafjár. Svo eru aukafundir líka haldnir ef kjörinn endurskoðandi krefst þess. Þetta gæti haft áhrif ef tilskilinn hluti hluthafa hefur óskað eftir hluthafafundi um tiltekið málefni og skýrt dæmi er um það í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 15. september 1994, í máli nr. 315/1994, sem er góður og fordæmisgefandi dómur og gefur manni mikla innsýn inn í hluthafafundi.

Byrjum á aðalfundum: Hvaða málefni eru tekin fyrir þar? Þar þarf auðvitað að fara eftir lögum og lagafyrirmælum. Þau málefni eru tekin fyrir sem kveðið er á um í lögunum, t.d. eins og staðfesting ársreiknings. Það þarf líka að fara yfir þessi praktísku atriði, eitthvað sem maður myndi halda að væri undir framkvæmdastjóra komið, en það er tekið upp á aðalfundi hvernig skuli fara með annaðhvort tap eða hagnað reikningsársins sem var að líða. Stundum, ef það á við, er líka tekin fyrir starfskjarastefna og svo þarf auðvitað að taka fyrir laun stjórnarmanna á hluthafafundum. Önnur málefni geta verið málefni samkvæmt samþykktum félagsins og fyrirmælum sem fram koma þar. Og fleiri málefni, jú, jú, og höfum í huga að það sem ég er að telja upp hér er alls ekki tæmandi. Ef hluthafi krefst þess að taka upp eitthvert tiltekið málefni þá ber að taka það fyrir. En eins og ég kom inn á áðan, forseti, þá þarf þetta að vera — og þó, ég veit það ekki, ég er ekki búin að kynna mér það, ég ætlaði að segja að þetta þyrfti að vera í samræmi við hlutafjáreign hluthafa, en ég er ekki viss hvort þú þurfir að eiga einhvern tiltekinn hluta í félagi til að geta krafist þess að taka upp málefni. En þetta, virðulegur forseti, ber að skoða nánar því að þetta er bara mjög mikilvægt að vita. Fleiri málefni sem er hægt að taka upp eru málefni sem stjórn félagsins ákveður og svo eru önnur málefni sem er hægt að taka upp á aukafundum en það er ekkert takmarkandi við aukafundi, þannig séð, það eru bara málefni sem varða félagsstarfið eða hagsmuni félagsins sem um ræðir. Það er bara flott.

Einnig þarf að fara út í hvernig hluthafafundir eru boðaðir, hver boðar fundinn. Ef ágallar eru á fundarboði, telst fundurinn gildur? Til þess að fá svar við þeirri spurningu sem ég var að spyrja hér, forseti, er unnt að líta til dóms Hæstaréttar frá 16. mars 2013 í máli nr. 714/2012, en þar lagði Hæstiréttur til grundvallar eftirfarandi:

„Áfrýjendur hafa ekki lagt fram gögn um að boðað hafi verið til hluthafafundarins 26. mars 2009 í samræmi við samþykktir stefnda og er því ósannað af hálfu þeirra að svo hafi verið. Var kjör nýrrar stjórnar á honum því ólögmætt.“

Já, forseti, þetta bara gerðist. Ég held að þetta sé mjög góður og fordæmisgefandi dómur þegar kemur að því að skýra mikilvægi þess að fundarboð hluthafafunda séu í samræmi við félagasamþykktir og lög.

Þegar fundir eru boðaðir eru alls konar gögn sem þurfa að liggja fyrir líka. Það eru gögn eins og t.d. dagskráin. Virðulegur forseti Alþingis boðar ekki til þingfundar nema dagskrá þingfundarins liggi fyrir. Svo þurfa endanlegar tillögur líka að liggja fyrir við boðun hluthafafundar. Það er líka þannig, eins og t.d. hér á þingi, að ekki er hægt að búa til dagskrá þingsins nema endanlegar tillögur liggi fyrir. Ef um aðalfund félags er að ræða þarf ársreikningur að liggja fyrir, skýrsla stjórnar þarf að liggja fyrir og svo þarf skýrsla endurskoðenda og skoðunarmanna að liggja fyrir. Hvenær þarf þetta að liggja fyrir? Jú, það þarf að vera a.m.k. viku fyrir fund. Gögnin eiga að liggja fyrir á skrifstofu félagsins eða þau eru send þeim sem óska eftir því.

Svo eru það atkvæðagreiðslur sem fara fram á þessum fundum. Það er svolítið skemmtilegt af því að hér á þingi erum við náttúrlega með svona takka sem við ýtum á. Á hluthafafundum er form atkvæðagreiðslna svolítið fjölbreytt, en þar er m.a. boðið upp á handauppréttingu, það er boðið upp á skriflega atkvæðagreiðslu og svo eru líka aðrar aðferðir sem má nota til að greiða atkvæði. Það væri gaman að vita hvort nokkurs staðar sé nafnakall eins og við erum stundum með hér á þingi. Til þess að fá einhverja tillögu samþykkta á hluthafafundi er meginreglan sú að það þurfi að vera einfaldur meiri hluti, í tilteknum málum þarf stundum að vera hreinn meiri hluti, sem sagt allir á hluthafafundinum þurfa að samþykkja hana. Stundum þarf aukinn meiri hluta, t.d. þegar kemur að breytingum á samþykktum eða skerðingu arðs til hagsbóta fyrir félagið. Svo er spurning hvað gerist ef atkvæði falla jafnt. Maður spyr sig, forseti.

Það eru alls konar hlutir sem má skoða þegar kemur að hlutafélögum. Nú ætla ég að tala aðeins um stjórnarfundi hlutafélaga. Eins og ég kom inn á áðan, forseti, er hægt að halda rafræna stjórnarfundi samkvæmt 3. mgr. 70. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995. Ef menn vilja halda rafræna stjórnarfundi þarf auðvitað að senda út fundarboð í samræmi við þær reglur sem ég var að lesa upp hér áðan, eðlilega. Hverjir eiga sæti á stjórnarfundum? Það fer auðvitað eftir lögum og fer eftir framkvæmd. Svo eru áheyrnarfulltrúar stundum með sæti á stjórnarfundum og fulltrúar mikilvægra lánveitenda. Stundum eru varamenn líka með sæti á stjórnarfundum. Það er bara gaman.

Auðvitað þarf líka að ræða aðgang stjórnarmanna að upplýsingum og gögnum. Þá erum við að tala um gerðabók og fundargerðir. Það má velta sönnunargildinu fyrir sér líka, við erum með jákvætt og neikvætt sönnunargildi í félagarétti sem mætti skoða með tilliti til efnisins sem kemur fram í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Það er bara flott. Við erum með tvo dóma sem koma inn á neikvætt og jákvætt sönnunargildi. Í dómi Hæstaréttar frá 3. febrúar 2011, í máli nr. 708/2010, er komið inn á neikvætt sönnunargildi en í dómi Hæstaréttar frá 7. júní 2012, í máli nr. 442/2011, er komið inn á jákvætt sönnunargildi og það var refsimál. Það er fínt að hafa þetta á hreinu.

Um ályktunarhæfi á stjórnarfundum, þegar kemur að ákvarðanatöku, má skoða 1. mgr. 71. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995, en þar segir, með leyfi forseta:

„Félagsstjórn er ákvörðunarbær þegar meiri hluti stjórnarmanna sækir fund, svo framarlega sem ekki eru gerðar strangari kröfur í samþykktum félags. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið sé þess kostur. Ef stjórnarmaður forfallast vegna veikinda, fjarveru o.þ.h. og valinn hefur verið varamaður skal honum veittur kostur á þátttöku í stjórnarfundum meðan forföllin vara.“

Almenna reglan, ekki meginreglan heldur almenna reglan, er sú að það er bært að taka ákvörðun á stjórnarfundum ef meiri hluti stjórnarmanna er viðstaddur á fundinum og auðvitað, eins og með flestar reglur, eru undantekningar á þessu, forseti. Undantekningin er þegar um er að ræða mikilvægar ákvarðanir. En hvað er mikilvæg ákvörðun þegar kemur að stjórnarfundi hlutafélaga? Þá má skoða hvort kveðið sé á um það í samþykktum félaga hvort eitthvað flokkist sem mikilvæg ákvörðun. Til samanburðar erum við með ákvæði í fjöleignarhúsalögum þar sem kveðið er á um að það þurfi annaðhvort hreinan meiri hluta eða tvo þriðju o.s.frv. ef um mikilvæga eða stóra ákvörðun er að ræða. Mig minnir að þetta sé í 27. gr. fjöleignarhúsalaga þar sem talað er um ákvörðunartöku eða atkvæðagreiðslu á húsfélagsfundi. Ef t.d. er verið að mála allan vegginn vestanmegin á blokkinni þá þurfa eiginlega allir að segja já því að það er svolítið stór ákvörðun. (Forseti hringir.) Ef um mikilvægar ákvarðanir á stjórnarfundum hlutafélaga er að ræða þurfa allir að hafa tök á að fjalla um það tiltekna mál sé þess kostur.