Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd rammasamning um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja, sem var undirritaður í Reykjavík þann 14. október síðastliðinn.

Rammasamningnum er ætlað að leysa af hólmi núverandi fyrirkomulag samningsviðræðna ríkjanna um veiðiheimildir, sem byggir á niðurstöðu viðræðna um fiskveiðar milli ríkjanna sem undirrituð var 20. mars 1976. Núgildandi framkvæmd hefur skilað sér í gerð árlegs bréfaskiptasamnings um gagnkvæmar heimildir ríkjanna til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á ári hverju. Slíkur samningur hefur í kjölfarið verið lagður fyrir Alþingi til samþykktar á hverju haustþingi.

Viðræður um breytta framkvæmd hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið. Samhliða árlegu samráði um fiskveiðiheimildir í lögsögu ríkjanna, sem fram fór í desember 2021, náðist samkomulag milli þjóðanna um að leitast yrði við að ljúka vinnu um að breyta fyrirkomulagi þessara samningaviðræðna. Þeirri vinnu lauk á þessu ári.

Með rammasamningnum er fyrirkomulagið einfaldað og verður þannig heimilt að semja um þessi fiskveiðiréttindi á árlegum samráðsfundum ríkjanna sem haldnir verða með stoð í samningnum. Í breyttu fyrirkomulagi felst talsvert hagræði þar sem samningsviðræður hafa verið talsvert þungar í vöfum með eldra fyrirkomulagi.

Rammasamningurinn gerir ráð fyrir að hvoru ríki fyrir sig sé heimilt að færa veiðiheimildir til hins aðilans, svo sem að veita skipum hins aðgang að fiskveiðilögsögu sinni til veiða, og er miðað við að slíkar tilfærslur og aðgangur fái umfjöllun í árlegum viðræðum ríkjanna. Heimild til slíkra tilfærslna og aðgangsveitingar er að finna í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 22/1998.

Í samningnum er fyrirkomulag árlegra viðræðna rammað inn og skulu aðilar á viðræðufundum einkum leitast við að komast að niðurstöðu um tilfærslur veiðiheimilda, aðgang fiskiskipa og samkomulag um reglufylgni, eftirlit og framkvæmd. Niðurstöður árlegra viðræðna munu teljast til milliríkjasamnings og þar af leiðandi verða birtar í C-deild Stjórnartíðinda.

Rammasamningurinn er ótímabundinn en uppsegjanlegur með tilkynningu til hins aðilans og telst slitið í lok næsta almanaksárs á eftir því ári þegar tilkynningin var send. Samningurinn öðlast gildi þegar stjórnskipulegum skilyrðum hvors lands um sig hefur verið fullnægt.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.