Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér með til umræðu rammasamning sem er ætlað að verja betur hagsmuni okkar og auka hagræði, tryggja m.a. að kvóti sem við getum veitt verði eftir atvikum veiddur innan lögsögu Færeyja sem getur aukið virði kvótans. Ég held að það þurfi enginn að efast um afstöðu okkar Íslendinga til stríðsins í Úkraínu sem nú geisar. Þar finnst mér við á Alþingi hafa talað nokkurn veginn einni röddu og íslensk stjórnvöld sent mjög skýr skilaboð. Þetta er aðeins flóknara mál svona heilt yfir en hv. þingmaður lætur í skína. Við getum í því sambandi nefnt hversu mörg Evrópuríki stunda enn umfangsmikil viðskipti við Rússland. Við getum sömuleiðis haft í huga að Noregur og Rússland gera enn sína kvótaskiptasamninga þrátt fyrir átökin. Þannig hefur hver og ein þjóð leitast við að senda skýr skilaboð, taka skýra afstöðu en meta sína hagsmuni heildstætt líkt og við höfum gert. Mér finnst að okkur Íslendingum hafi í raun og veru tekist að mynda góða samstöðu um það að héðan heyrist skýr rödd. Það eru hagsmunir okkar að fá niðurstöðu í þennan rammasamning milli Íslands og Færeyja og afstaða okkar gagnvart stríðinu er ekkert lakari eða veikari fyrir þær sakir að við viljum ljúka rammasamningnum. Afstöðu Færeyja verður að meta í heildarsamhengi hlutanna, ekki eingöngu út frá þessu atriði sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni.