Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mig langar að spyrja um 7. gr. frumvarpsins vegna þess að hér er um umtalsverða breytingu að ræða á því sem hefur orðið fastur liður fyrir jólin, a.m.k. hjá mér á þeim tíma sem ég hef verið hér á Alþingi, sem er að Alþingi samþykki alltaf nýjan samning ár hvert á milli Íslands og Færeyja. Nú verður þetta sett í rammasamning sem felur í raun í sér að við erum að útvista þessu sérstaklega til embættismanna, en auðvitað að endingu til ráðherra og þetta fer ekki lengur fyrir Alþingi eins og hefur verið hingað til. Mig langar að vísa í bls. 3 í greinargerð frumvarpsins en þar segir um 7. gr. að þar sé ákvæði sem áréttar að þessum samningi „er ekki ætlað að hafa áhrif á réttindi, lögsögu og skyldur samningsaðila varðandi mál sem tengjast hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982 eða samningnum frá 1995 um framkvæmd ákvæða hafréttarsamningsins …“.

Ég biðst velvirðingar, virðulegi forseti, ég er að reyna að finna partinn þar sem stóð að þetta ætti ekki að fara fyrir þingið. Það er 6. gr. Það er ekki gert ráð fyrir því, með leyfi forseta, „að slík samningsbreyting yrði lögð fyrir Alþingi eða forseta til staðfestingar nema um meiri háttar efnisbreytingu væri að ræða.“ Þetta yrði eftir sem áður birt í C-deild Stjórnartíðinda. Það er kannski akkúrat þessi skilgreining sem ég er að velta fyrir mér: Meiri háttar breyting eða meiri háttar efnisbreyting, eins og hér er sagt. Það virðist ekki vera skilgreint neitt nánar eða skýrar við hvað er átt með því. Gæti hæstv. ráðherra upplýst okkur um hvernig meiri háttar efnisbreyting er skilgreind í þessu samhengi?